Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses. var haldinn á Fosshótel Húsavík þann 2. maí. Fundurinn var vel sóttur af stofnfjáreigendum og var virk og góða þátttaka á fundinum.
Hagnaður af rekstri sjóðsins eftir skatta nam 36,9 milljónum króna á árinu 2021. Eignir sjóðsins eru ríflega 11 milljarðar og hafa aukist um 12% frá fyrra ári. Nam eiginfjárhlutfall 20,58% um áramót en eiginfjárkrafan er 17,44%. Útlán jukust um 3,6% og innlán um 12,8%, lausafjárstaða er mjög góð.
Samþykkti aðalfundur heimild til stjórnar um aukningu stofnfjár um 50 milljónir króna og hafa núverandi stofnfjáreigendur forkaupsrétt til 1. september 2022.
Sparisjóðurinn veitti styrki á árinu 2021 fyrir um 1,9 milljónir króna. En á aðalfundinum voru afhentir styrkir, annars vegar 1 milljón króna til Rauða krossins til stuðnings við komu flóttamanna á starfssvæði sjóðsins, hins vegar var afhentur 500 þúsund króna styrkur til Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni til að styðja við félagsstarfið sem hefur verið þessum hópi erfitt í gegnum Covid tímabilið. Jafnframt verður afhentur styrkur til annarra félaga eldri borgara á starfssvæði sjóðsins í takt við fjölda félagsmanna og verður heildarfjárhæð styrkja til þessa verkefnis 1 milljón króna.
Hjá sparisjóðnum starfa 12 starfsmenn á þremur afgreiðslustöðum, Laugum, Húsavík og í Reykjahlíð. Sparisjóðsstjóri er Eyjólfur Vilberg Gunnarsson.
Í stjórn sparisjóðsins voru kosin Helga Sveinbjörnsdóttir, Gerður Sigtryggsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Eiríkur Haukur Hauksson og Pétur Snæbjörnsson. Til vara voru kosin Elísabet Gunnarsdóttir og Þorgrímur Daníelsson.