Sparisjóður Austurlands fagnar 100 ára afmæli á þessu ári. Hann var stofnaður 2. maí 1920 og hóf rekstur 1. september sama ár. Sparisjóðurinn mun minnast tímamótanna á ýmsan hátt á árinu, sjá nánar á heimasíðu sjóðsins www.sparaust.is En dagskrá viðburða hefur raskast vegna kórónaveirunnar.
Í tilefni af 100 ára afmælinu færir Sparisjóður Austurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands 1,2 milljónir króna að gjöf, sem varið verður til kaupa á sjónvarpsbúnaði fyrir fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Í gangi er vinna við að setja upp sjónvörp við öll sjúkrarúm sjúkrahússins, þar sem hver sjúklingur getur ákveðið á hvað hann horfir. Með gjöf Sparisjóðs Austurlands verður þetta verkefni klárað. Var gjöfin veitt á aðalfundi Sparisjóðs Austurlands, sem haldinn var 27 maí.
Rekstur Sparisjóðs Austurlands gekk vel á síðasta ári. Sparisjóðurinn veitir á þessu ári, vegna hagnaðar síðasta árs, samtals 3,6 milljónum króna til ýmissa samfélagsmála á Austurlandi. Hagnaður fyrir skatta og lögbundið 5% framlag til samfélagslegra verkefna, var 71,2 milljónir kr. Skattar 12,3 milljónir kr. og hagnaður ársins eftir skatta 55,3 milljónir kr. Útlán jukust um 860 milljónir eða 20,8% og voru heilarútlán sjóðsins í árslok 2019, tæpir fimm milljarðar.
Heildareignir Sparisjóðs Austurlands voru þann 31. desember 2019 rúmir 7 milljarðar kr. og bókfært eigið fé 922 milljónir kr. CAD Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins var í árslok 2019 24,64%. Þann 1. janúar 2020 tók gildi reglugerð ESB um breytta áhættuvog áhættuskuldbindinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sparisjóður Austurlands hefur metið áhrifin á sjóðinn og er niðurstaðan að eiginfjárhlutfallið hækkar í 26,39%. Eiginfjárkrafa FME á sjóðinn var í lok síðasta árs 20,35%. Eftir lækkun á sveiflujöfnunarauka í mars, er eiginfjárkrafan 19,6%.
Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur G. Pálsson sparisjóðsstjóri í síma 4701102 eða villi@sparaust.is
Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi sína á símstöðinni í húsinu Adamsborg 1. september 1920. Myndin af Adamsborg er tekin árið 1921 í tilefni af símstöðvarstjóraskiptum. Fyrrverandi símstöðvarstjóri Valdimar Valvesson Snævarr er til vinstri, en nýráðinn símstöðvarstjóri Ingi T. Lárusson er til hægri.
Ljósm.: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.
Nes í Norðfirði um líkt leyti og Sparisjóður Norðfjarðar var að hefja starfsemi.
Ljósmynd: Björn Björnsson
Afmælissýning 2020
Sparisjóðurinn 2020