Hvernig kort er gjafakort sparisjóðsins?
Gjafakort sparisjóðsins er fyrirframgreitt kreditkort. Kortið er hægt að nota hjá öllum söluaðilum sem taka á móti VISA kortum sem og á netinu. Kortið hringir eftir heimild í hvert skipti sem það er notað og því á ekki að vera hægt að "fara yfir“ á því.
Geta allir keypt og notað kortið?
Það geta allir keypt gjafakort sparisjóðsins og það er ekki nauðsynlegt að vera viðskiptavinur sparisjóðsins til þess að kaupa kortið. Það geta jafnframt allir notað gjafakortið.
Er einhver takmörkun á fjárhæð þegar lagt er inn á gjafakortið?
Já, hámarksupphæð er 200.000 kr. og lágmarksupphæð er 2.000 kr.
Hvar er hægt að kaupa gjafakort?
Það er hægt að panta gjafakort hér á vefsíðu Sparisjóðsins. Einnig er hægt að fá gjafakort á öllum afgreiðslustöðum sparisjóðanna og er kortið afhent í fallegum gjafaumbúðum.
Þegar inneign gjafakorts klárast, er hægt að fylla á kortið aftur?
Nei, þegar inneign klárast er gjafakortið í raun ónýtt.
Hvar get ég skoðað inneignina á kortinu?
Hægt er að skoða inneignina á kortinu hér. Engin yfirlit eru send vegna gjafakortsins.
Hvað gerist ef gildistími korts rennur út en inneign er til staðar?
Hægt er að fá nýtt gjafakort með þeirri inneign sem er til staðar. Korthafi hefur þrjá mánuði til að færa inneignina á nýtt gjafakort. Greiða þarf fyrir nýtt gjafakort samkvæmt gjaldskrá sparisjóðsins.
Er gjafakortið með örgjörva og PIN númer?
Gjafakortið er örgjörvalaust og því fylgir ekkert PIN númer. Á kortinu er segulrönd og er það notað með því að renna segulröndinni í gegnum posa söluaðila þegar verslað er með því.
Af hverju þarf að greiða fyrir gjafakortið?
Það fylgir því ákveðinn kostnaður að gefa út gjafakortið. Í staðinn fær kaupandi gjafakortið í gjafaumbúðum.
Er hægt að nota gjafakortið erlendis?
Það er hægt að nota kortið erlendis en handhafar gjafakorts geta þó lent í vandræðum þar sem ekki er örgjörvi á kortinu. Því er ávallt æskilegt að gera aðrar ráðstafanir meðfram notkun kortsins erlendis.
Er hægt að nota gjafakortið á netinu?
Já, í flestum tilfellum er það hægt. Aftan á kortinu er til að mynda CVC2 öryggisnúmer sem oftast þarf að skrá inn hjá söluaðila. Í einhverjum tilfellum getur söluaðili óskað eftir nánari upplýsingum um handhafa gjafakortsins.
Ef gjafakortið týnist, hvað geri ég?
Ef gjafakortið týnist er nauðsynlegt að hafa skráð niður númer kortsins til að geta lokað því. Gjafakortin eru ekki skráð á nafn og því getur hver sem er notað það. Til að láta loka kortinu er best að hafa samband við sparisjóðinn sem gaf kortið út. Glatist kortið utan opnunartíma sparisjóðsins er hægt að hringja í þjónustuver Valitor í síma 525 2000.
Við hvaða gengi á að miða við ef færslan er erlend?
Miðað er við gengi VISA sem hægt er að skoða á heimasíðu sparisjóðsins. Athugaðu að erlendar færslur geta ekki verið hærri en 95% af inneign korts.
Þarf að samþykkja skilmála eins og á við um önnur greiðslukort?
Handhafi gjafakorts samþykkir skilmála kortsins við fyrstu notkun.