Samkvæmt nýjum lögum um fasteignalán til neytenda sem nýlega voru samþykkt á alþingi og taka gildi 1. apríl 2017, þá er lánveitanda aðeins heimilt að krefja neytanda um gjöld sem fram koma í samningi um fasteignalán og byggjast á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem lánveitandi verður fyrir. Þetta þýðir að það verður óheimilt að krefja neytanda um lántökugjald sem hlutfall af lánsupphæð.
Viðskiptabankar og lánastofnanir eru nú þegar farnar að aðlaga sig að þessum lögum með því að festa lántökugjald við kostnað sem lánveitandi verður fyrir og tengist fasteignaláninu beint.
Frá og með 1. nóvember verður fast lántökugjald vegna íbúðalána hjá Sparisjóðunum 59.900, óháð lánsfjárhæð.
Einnig til að koma til móts við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, þá ætla Sparisjóðirnir að fella niður lántökugjald við fyrstu íbúðakaup.
Nánari upplýsingar um verðskrá og vexti er að finna undir Vextir og verðskrá.
Nánari upplýsingar gefa þjónusturáðgjafar Sparisjóðanna.