Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.
Í þessum þáttum hefur þess áður verið getið að fyrstu tilraun til að stofna sparisjóð á Íslandi hafi bændasynir og aðrir sem ekki stóðu fyrir búi í Skútustaðahreppi gert. Þessi sjóður Mývetninga var stofnaður árið 1858 og starfaði til ársins 1864. Sjóðurinn var lagður niður vegna þess að bændur höfðu takmarkaðan áhuga á að skuldsetja sig og eins vegna skorts á lausafé.
Næsta tilraun til sparisjóðsstofnunar var gerð á Seyðisfirði þegar Sparisjóður Múlasýslna var stofnaður árið 1868. Sá sjóður starfaði einnig einungis í fáein ár.
Þó svo að þessir tveir fyrstu sparisjóðir væru ekki langlífir voru þeir upphaf athyglisverðrar þróunar. Þess varð ekki langt að bíða að fleiri sjóðir litu dagsins ljós og bendir flest til að saga sparisjóða á Íslandi sé órofin frá árinu 1868.
Um aldamótin 1900 voru sparisjóðirnir í landinu orðnir 24 talsins, en auk þeirra hafði verið stofnsettur banki, Landsbanki Íslands, sem hóf starfsemi árið 1886. Annar banki, Íslandsbanki, tók síðan til starfa árið 1904. Áður hefur komið fram í þessum þáttum að Íslandsbanki opnaði útibú á Seyðisfirði strax og bankinn tók til starfa en Landsbankinn opnaði útibú á Eskifirði árið 1918.
Þegar Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður árið 1920 voru starfandi sparisjóðir 49 talsins og hafði fjölgað um meira en helming á 15 árum.
Fyrsta opnan í elstu "kassabók" Sparisjóðs Norðfjarðar. Sparisjóðurinn var stofnaður árið 1920 en á því ári voru 49 sparisjóðir starfandi í landinu.
Frá aldamótunum og allt fram til 1960 fór sparisjóðum í landinu fjölgandi og í lok þessa tímabils voru þeir 63 að tölu. Þrátt fyrir fjölgun sparisjóðanna voru nokkrir sjóðir lagðir niður eftir mislanga starfsemi en enn fleiri voru þó yfirteknir af bönkum þegar komið var á fót bankaútibúum á stöðum sem sparisjóðir höfðu starfað á.
Eftir 1960 tók sparisjóðum í landinu að fækka. Árið 1990 hafði þeim fækkað um tæplega helming á 30 árum og voru þá 32 talsins. Árið 2000 voru sparisjóðirnir 25 að tölu og einungis 12 árið 2010, enda hafði sparisjóðum fækkað mikið í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 og þá hurfu af vettvangi allir stærstu sjóðirnir. Nú eru einungis starfandi 4 sparisjóðir í landinu. Þeir eru Sparisjóður Austurlands (áður Sparisjóður Norðfjarðar), Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Höfðhverfinga og Sparisjóður Strandamanna.
Nes í Norðfirði um líkt leyti og Sparisjóður Norðfjarðar var að hefja starfsemi.
Ljósmynd: Björn Björnsson
Hér á eftir birtist tafla sem veitir upplýsingar um fjölda sparisjóða í landinu á tímabilinu 1870-2020:
Ár |
Fjöldi |
Ár |
Fjöldi |
1870 | 1 | 1950 | 57 |
1880 | 5 | 1960 | 63 |
1890 | 13 | 1970 | 53 |
1900 | 24 | 1980 | 42 |
1910 | 30 | 1990 | 32 |
1920 | 49 | 2000 | 25 |
1930 | 50 | 2010 | 12 |
1940 | 56 | 2020 | 4 |