Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.
Miðvikudaginn 1. september 1920 kl. 14 var afgreiðsla Sparisjóðs Norðfjarðar opnuð í fyrsta sinn. Tekist hafði að finna húsnæði fyrir afgreiðsluna á símstöðinni í húsinu Adamsborg í Neskauptúni. Allir þrír stjórnarmenn eða “forstjórar” sjóðsins voru saman komnir á símstöðinni áður en starfsemin hófst og höfðu þeir undirritað yfirlýsingu þar sem þeir hétu því að halda öllum viðskiptum viðskiptavina sjóðsins leyndum fyrir óviðkomandi. Við upphaf starfseminnar kom reynsla Páls Guttormssonar Þormars, stjórnarformanns sparisjóðsins, að góðum notum en hann hafði starfað við útibú Íslandsbanka á Seyðisfirði áður en hann fluttist að Nesi í Norðfirði.
Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi sína á símstöðinni í húsinu Adamsborg 1. september 1920. Myndin af Adamsborg er tekin árið 1921 í tilefni af símstöðvarstjóraskiptum. Fyrrverandi símstöðvarstjóri Valdimar Valvesson Snævarr er til vinstri, en nýráðinn símstöðvarstjóri Ingi T. Lárusson er til hægri.
Ljósm.: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.
Nokkru áður en starfsemin hófst höfðu ábyrgðarmenn sjóðsins kosið sérstaka nefnd til að safna fé vegna stofnkostnaðar og hafði nefndinni tekist að afla 1.000 kr. Söfnunarféð var nýtt til kaupa á nauðsynlegum bókhaldsbókum og til að kosta prentun á viðskiptabókum og eyðublöðum. Einnig var keyptur rammgerður járnskápur til að geyma í fjármuni og ýmis gögn.
Á þessum fyrsta starfsdegi sjóðsins var alls lagt inn á 43 viðskiptabækur eða sparisjóðsbækur og var upphæðin á bókunum samtals 4039,05 kr. Auk þess keypti sjóðurinn tvo víxla á kr. 100 hvorn. Víxill nr. 1 var keyptur af Sig. Stefánssyni á Barðsnesi en víxill nr. 2 af Lúðvík S. Sigurðssyni útvegsmanni á Nesi.
Daginn sem Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi undirrituðu hinir þrír „forstjórar“ (stjórnarmenn) sjóðsins þessa yfirlýsingu.
Sá sem fékk afhenta viðskiptabók nr. 1 var Konráð P. Þormar og sá sem fékk bók nr. 2 var Geir P. Þormar bróðir hans. Þeir bræðurnir voru synir Páls Guttormssonar Þormars stjórnarformanns sparisjóðsins.
Það voru einkum einstaklingar sem stofnuðu viðskiptabækur á þessum fyrsta starfsdegi sjóðsins og voru upphæðirnar sem þeir lögðu inn misjafnlega háar. Lægstu uppæðirnar voru 2 kr. en sú hæsta 1.250 kr. Eins lögðu þrjár stofnanir inn á viðskiptabækur á þessum fyrsta starfsdegi og voru það Nesskóli, Hafnarsjóður Neskauptúns og Sjúkrasamlag Neskaupstúns.
Forsvarsmenn sparisjóðsins voru ánægðir með upphaf starfseminnar og var almennt talið að rök þeirra sem höfðu forgöngu um sjóðsstofnunina hefðu staðist í öllum aðalatriðum. Norðfirðingar tóku eigin peningastofnun fagnandi strax í upphafi, sýndu henni ótvírætt traust og hófu að skipta við hana. Íbúarnir höfðu trú á því að Sparisjóður Norðfjarðar yrði með tímanum traustur og góður sjóður og það borgaði sig að efla hann svo hann gæti rækt hlutverk sitt sem allra best.
Eigandi viðskiptabókar nr. 28 í Sparisjóði Norðfjarðar var Björn Björnsson sem síðar varð kaupmaður í Neskaupstað. Faðir hans og alnafni var einn af upphaflegum ábyrgðarmönnum sjóðsins. Birni var lengi í fersku minni þegar hann lagði 22 kr. inn í sparisjóðinn á fyrsta starfsdegi hans. Björn sagði svo frá:
Björn Björnsson yngri var eigandi sparisjóðsbókar nr. 28 í Sparisjóði Norðfjarðar. Fyrst var lagt inn á bókina á opnunardegi sjóðsins.