Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.
Elstu rituðu heimildina um að Norðfirðingar væru farnir að fjalla um stofnun sparisjóðs í heimabyggð er að finna í fundargerðabók Málfundafélagsins Austra. Á fundi í félaginu, sem haldinn var í húsi Jóns Ísfelds Guðmundssonar kaupmanns á Nesi þann 5. apríl árið 1919, var á dagskrá málefni þar sem varpað var fram þeirri spurningu hvort ætti að koma á fót sparisjóði á Norðfirði. Stefán Stefánsson kaupmaður hafði framsögu í málinu og sýndu fundarmenn því mikinn áhuga en alls sátu 14 Austrafélagar umræddan fund.
Málfundafélagið Austri var merkur félagsskapur. Félagið var stofnað í lok árs 1918 og lét að sér kveða allt til ársins 1929. Á Austrafundum var fyrst hreyft mörgum framfaramálum í byggðarlaginu og oft beindu Austramenn máli sínu til hreppsnefndar Neshrepps sem gjarnan var hvött til að sinna þörfum verkefnum. Umræða um stofnun sparisjóðs var einungis eitt þeirra mikilvægu mála sem Austri hóf umfjöllun um.
Málfundafélagið Austri var félagsskapur karla og konur komu þar hvergi við sögu. Ekkert fer á milli mála að flestir helstu framámenn í Nesþorpi voru í Austra og því hafa samþykktir félagsins vegið þungt og verið áhrifaríkar.
Á umræddum Austrafundi fjallaði Stefán Stefánsson framsögumaður um stofnun sparisjóðs og taldi að vænlegast væri að annað tveggja bankaútibúa í fjórðungnum, útibú Íslandsbanka eða Landsbankans, fæli einhverjum manni á Norðfirði að veita móttöku innlögnum í sparisjóð og gefa út bækur fyrir. Vildi Stefán láta koma þessu í kring hið bráðasta.
Fyrst var rætt um stofnun sparisjóðs á Norðfirði
á fundi í Málfundafélaginu Austra 5. apríl 1919.
Stefán Stefánsson kaupmaður hafði framsögu um málið.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.
Þegar Stefán hafði lokið framsöguerindi sínu tóku þrír fundarmenn til máls; Páll Guttormsson Þormar, Björn Björnsson og Valdimar Valvesson Snævarr. Allir lýstu þeir sig mótfallna því fyrirkomulagi á sparisjóði sem frummælandi hafði mælt með og töldu eðlilegra í alla staði að stofnaður yrði sjálfstæður sparisjóður á Norðfirði.
Að umræðum loknum var samþykkt tillaga um að kjörin yrði þriggja manna nefnd sem myndi athuga hvort gerlegt væri að stofna sparisjóð á Norðfirði og voru þeir Stefán Stefánsson, Björn Björnsson og Vilhjálmur Benediktsson kjörnir í nefndina.
Blaðsíða úr fundargerðabók Málfundafélagsins Austra.
Á myndinni sést hvað bókað var um sparisjóðsmálið á
fundinum 5. apríl 1919 þegar það var fyrst rætt.
Nefndin hóf fljótlega störf og eitt af fyrstu verkum hennar var að semja bréf þar sem einstaklingum var boðið að ábyrgjast ákveðna fjárupphæð fyrir væntanlegan sparisjóð. Bréfið var undirritað af nefndarmönnunum þremur og dagsett 1. maí árið 1919. Gert var ráð fyrir að væntanlegir ábyrgðarmenn rituðu nöfn sín á lista sem fylgdi bréfinu og tiltækju þá upphæð sem þeir vildu ábyrgjast. Bréf sparisjóðsnefndarinnar var svofellt:
Aftur var sparisjóðsmálið á dagskrá fundar Málfundafélagsins Austra þann 17. maí og gerði þá formaður sparisjóðsnefndarinnar, Stefán Stefánsson, grein fyrir störfum hennar. Upplýsti hann að rætt hefði verið við “flesta mektarmenn í hreppnum” og hefðu undirtektir þeirra verið góðar þó ekki hefðu þeir viljað skrifa sig fyrir vissri upphæð til styrktar hinum væntanlega sjóði.
Eftir talsverðar umræður um málið á fundinum var samþykkt að bæta tveimur mönnum í sparisjóðsnefndina og voru þeir Páll Guttormsson Þormar og Ingvar Pálmason kjörnir til viðbótar þeim þremur sem fyrir voru.
Nefndin hélt áfram störfum sínum eftir þetta og gengu þau nú hratt og vel fyrir sig. Á næstu mánuðum fengust tuttugu einstaklingar til að veita ábyrgðir til handa væntanlegum sparisjóði og ábyrgðust þeir samtals 15.800 kr. Var sú upphæð talin fullnægjandi og var þá fátt því til fyrirstöðu að stofna sjóðinn með formlegum hætti.
Þegar sparisjóðsnefnd Málfundafélagsins Austra hafði fengið menn til að veita væntanlegum sparisjóði ábyrgðir hafði hún í reynd lokið hlutverki sínu en ábyrgðarmennirnir tóku til við að undirbúa stofnun og starfsemi sparisjóðsins.
Á fundi í Austra þann 14. febrúar árið 1920 upplýsti einn ábyrgðarmannanna, Björn Björnsson, að lokið væri við að semja uppkast að lögum fyrir væntanlegan sparisjóð og hefðu ábyrgðarmennirnir sett sér það markmið að sjóðurinn gæti tekið til starfa eftir um það bil hálft ár, eða 1. september.