Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.
Þegar Norðfirðingar hófu að velta fyrir sér þeim möguleika að koma á fót peningastofnun í heimabyggð beindist athygli þeirra að sparisjóðum sem þá störfuðu orðið allvíða á landinu. Ýmsir Norðfirðingar höfðu kynnst starfsemi sparisjóða í öðrum byggðarlögum og aðrir sóttust eftir að fræðast um sögu þeirra og hlutverk.
Nesþorp á öðrum áratug 20. aldar. Þorp í örum vexti en án peningastofnunar.
Mynd: Björn Björnsson.
Fyrstu tilraunina til að stofna sparisjóð á Íslandi gerðu bændasynir og aðrir sem ekki stóðu fyrir búi í Skútustaðahreppi (Mývatnssveit) árið 1858. Var sjóðurinn nefndur Sparnaðarsjóður búlausra í Skútustaðahreppi. Þessi tilraun Mývetninga var afar athyglisverð en hins vegar starfaði sjóðurinn ekki lengi því hann var lagður niður árið 1864.
Sá sjóður sem næst var stofnaður sá dagsins ljós á Austurlandi. Um var að ræða Sparisjóð Múlasýslna á Seyðisfirði sem komið var á fót árið 1868. Tengdist stofnun sjóðsins mjög sölu á lifandi sauðfé til Englands, en kaupendurnir greiddu bændum í peningum og komst þá verulegt lausafé í hendur þeirra. Eins hafði það áhrif að um það leyti sem sjóðurinn var stofnaður voru Norðmenn að hefja umfangsmiklar síldveiðar á Austfjörðum og leiddi það til þess að ýmsir heimamenn eignuðust meira skotsilfur en þeir áttu að venjast.
Staðreyndin er sú að lítið er vitað um þessa fyrstu austfirsku peningastofnun og bendir flest til að hún hafi einungis verið starfrækt í fáein ár.
Sá sem hafði forgöngu um stofnun Sparisjóðs Múlasýslna var Ole Worm Smith sýslumaður en stofnendur hans voru átta talsins og lögðu þeir 200 ríkisdali í stofnsjóð.
Þó svo að þessir fyrstu sparisjóðir væru ekki langlífir voru þeir upphaf þróunar sem átti eftir að hafa mikil áhrif í landinu. Næstu sjóðir sem settir voru á stofn voru Sparisjóður Reykjavíkur árið 1872 og Sparisjóður Siglufjarðar árið 1873. Síðan fjölgaði sparisjóðum tiltölulega hratt og um aldamótin 1900 voru þeir orðnir 24 talsins og árið 1920 hvorki fleiri né færri en 49.
Landsbanki Íslands var stofnaður árið 1886 og voru miklar vonir bundnar við hann. Staðreyndin var hins vegar sú að í upphafi var starfsfé bankans lítið og olli tilkoma hans því ekki þeim straumhvörfum sem vonast var eftir. Bankinn lánaði samt nokkuð til útgerðar, verslunar og jarðabóta sem þótti vissulega jákvætt.
Um aldamótin 1900 var krafan um öflugan banka til að draga úr almennum fjárskorti í landinu orðin býsna sterk. Ekki var unnt að koma slíkum banka á fót með öðrum hætti en að stofna um hann hlutafélag og fá erlent fjármagn til starfseminnar. Þessi hlutafélagsbanki tók til starfa árið 1904 og bar heitið Íslandsbanki.
Snemma teygði starfsemi beggja þessara banka anga sína til Austurlands. Þegar á árinu 1904 opnaði Íslandsbanki útibú á Seyðisfirði og árið 1918 tók útibú Landsbanka Íslands til starfa á Eskifirði.
Þrátt fyrir að opnun útibúa bankanna skipti Austfirðinga miklu máli þá fullnægðu þau ekki þörfum allra. Íbúar sumra byggðarlaga, sem áttu um langan veg að sækja til Seyðisfjarðar eða Eskifjarðar, hófu að hyggja að því að koma á fót sparisjóði í sinni heimabyggð; staðbundninni peningastofnun sem lyti heimastjórn og gæfi viðskiptavinum kost á að taka peninga þeirra til varðveislu og ávaxta þá með öruggum hætti ásamt því að stuðla að framförum í viðkomandi byggðarlagi með útlánum og ábyrgðarstarfsemi. Norðfirðingar voru einmitt í þessum sporum á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar og þar spurðu sig margir hvort tilkoma sparisjóðs myndi ekki stuðla að eflingu samfélagsins við Norðfjörð.