Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig almennt fjallað um sögu sparisjóða í landinu.
Á tíunda áratug síðustu aldar gekk rekstur sparisjóðsins afar vel. Á áratugnum 1990-2000 var hagnaður af starfsemi sjóðsins hvert einasta ár og jókst eigið fé sjóðsins verulega með hverju ári. Þegar kom fram á nýja öld má segja að ævintýralegur uppgangur hafi einkennt íslenskt efnahagslíf og hafði það skýr áhrif á starfsemi og afkomu sparisjóðsins; innlán jukust mikið og útlán einnig.
Hin góða afkoma sparisjóðsins á umræddum tíma leiddi til þess að hann fjárfesti í nokkrum mæli í hlutabréfum sem gáfu góðan arð þó ekki væru fjárfestingarnar á þessu sviði jafn miklar og hjá mörgum öðrum fjármálastofnunum.
Hin jákvæða staða sparisjóðsins undir lok 20. aldarinnar leiddi meðal annars til þess að hann hóf að endurskilgreina starfssvæði sitt og hlutverk. Farið var að horfa á það sem markmið að hafa viðskipti um allt Austurland og bein afleiðing af því var opnun afgreiðslu á Reyðarfirði árið 1998. Einnig stóð til að opna afgreiðslu á Egilsstöðum en af því varð ekki. Afgreiðsla sjóðsins á Reyðarfirði var starfrækt til ársins 2012.
Sparisjóðurinn opnaði afgreiðslu á Reyðarfirði á
árið 1998.
Þegar kom fram yfir aldamót fóru fjárfestar að sýna sparisjóðnum verulegan áhuga og á árunum 2006 og 2007 fóru ýmsir þeirra að bjóða svimandi upphæðir í stofnfé sjóðsins. Stofnfjáreigendurnir eða ábyrgðarmennirnir létu hins vegar ekki freistast og ekki einn einasti þeirra seldi.
Frá afgreiðslu Sparisjóðsins á Reyðarfirði.
Í sannleika sagt þótti mörgum staða efnahagsmálanna á Íslandi á þessum tíma vera of góð til að vera sönn og að því kom að íslenska efnahagskerfið hrundi án mikils fyrirvara. Áfallið mikla dundi yfir í októbermánuði 2008 með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagið allt og að sjálfsögðu ekki síst fyrir fjármálastofnanir.
Á aðalfundi Sparisjóðsins árið 2007 hvarlaði hrun efnahagskerfisins ekki að nokkrum manni.
Rétt eins og aðrar fjármálastofnanir tapaði sparisjóðurinn miklu í hruninu en fljótlega var hafist handa við aðgerðir til að forða honum frá þroti. Þess var farið á leit við ríkisvaldið að það kæmi að því að lagfæra eiginfjárstöðu sjóðsins en þá var það skilyrði sett að sjóðurinn sjálfur myndi útvega fjármuni til að bæta stöðu hans áður en til kasta ríkisins kæmi. Leitað var til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja í Neskaupstað og verður vart annað sagt en viðbrögðin hafi verið jákvæð. Hinni fjárhagslegu endurskipulagningu sparisjóðsins lauk árið 2010.
Stjórn sparisjóðsins fjallaði ítarlega um stöðu hans á árinu 2011. Að lokinni athugun á öllum þáttum varð niðurstaðan sú að skynsamlegast væri að selja sjóðinn. Sparisjóðum hafði fækkað mikið og Samband íslenskra sparisjóða veikst að sama skapi og því var hagsmunum stofnfjáreigenda, starfsfólks og viðskiptavina álitið best borgið með því að selja sjóðinn öflugum banka. Tekin var ákvörðun um að auglýsa stofnfé sjóðsins til sölu í opnu söluferli en að loknum könnunarviðræðum við þrjá banka var fallið frá sölunni og því hélt sjóðurinn áfram sinni starfsemi.
Á aðalfundi sparisjóðsins árið 2015 var lögð fram tillaga um að breyta sjóðnum í hlutafélag og fyrir þeirri breytingu voru færð skýr rök. Tillagan var samþykkt og var þá nafni sjóðsins breytt úr Sparisjóður Norðfjarðar í Sparisjóður Austurlands. Breytingin á nafninu var gerð fyrst og síðast í þeim tilgangi að leggja áherslu á að starfssvæði sjóðsins væri ekki einungis Neskaupstaður og nágrenni heldur Austurland allt.
Síðustu ár hafa innviðir sparisjóðsins verið styrktir með markvissum hætti. Lausafjárstaðan hefur verið góð og útlán hafa farið vaxandi jafnt og þétt. Það má því fullyrða að endurreisn sjóðsins eftir hrunið árið 2008 hafi tekist býsna vel og sjóðurinn hafi náð þeirri stöðu að njóta mikils og ótvíræðs trausts í því samfélagi sem hann þjónar. Allri óvissu sem tengdist sjóðnum eftir hrun hefur verið eytt.