Sparisjóður 100 ára
Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.
Þegar unnið var að stofnun Sparisjóðs Norðfjarðar og verið var að safna ábyrgðarmönnum fyrir sjóðinn var verkefnið kynnt sem eitthvert áhrifaríkasta meðalið til þess að fá bankaútibú til Norðfjarðar. Þetta bendir til þess að umræður um nauðsyn bankaútibús á Norðfirði hafi átt sér stað áður en sparisjóðurinn var stofnaður og eins virðist það viðhorf hafa verið til staðar að ef sparisjóður tæki til starfa myndi það leiða til þess að banki myndi fljótlega yfirtaka starfsemi hans.
Eftir að Sparisjóði Norðfjarðar var komið á fót virðist umræðan um bankaútibú á staðnum hafa hljóðnað um langt skeið. Það var ekki fyrr en á árinu 1947 að umræða um bankaútibú hófst á ný en þá fór bæjarstjórn Neskaupstaðar þess á leit við stjórn Landsbanka Íslands að bankinn kæmi á fót útibúi í bænum. Ástæða þess að bæjarstjórnin samþykkti þessa beiðni var sú að atvinnureksturinn í bænum þyrfti með ærinni fyrirhöfn að sækja nauðsynlegt rekstrarfé á aðra staði og jafnvel í aðra landsfjórðunga með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði.
Bæjaryfirvöld unnu að framgangi þessa máls á næstu árum en árangur þeirrar vinnu var enginn. Meðal annars leitaði bæjarstjórnin stuðnings Fjórðungsþings Austfirðinga og ályktaði það á árunum 1947, 1950 og 1958 um mikilvægi þess að bankaútibúi yrði komið á fót í Neskaupstað. Einungis einu sinni á þessu árabili fjallaði stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar um stofnun bankaútibús. Þá var bréf frá útibússtjóra Landsbanka Íslands á Eskifirði tekið fyrir og í því kom fram að hugsanlegt væri að útibúi yrði stofnað svo fremi að sparisjóðurinn yrði sameinaður bankanum. Samþykkti stjórn sparisjóðsins að ganga til viðræðna við fulltrúa Landsbankans um þetta mál en hvergi er að finna heimildir um að þær viðræður hafi farið fram og virðist umræðan um bankaútibú hafa fallið niður um tíma eftir þetta.
Árið 1964 komst umræðan um bankaútibú aftur á dagskrá. Þá birtust greinar um málið í vikublaðinu Austurlandi. Í greinunum var lögð áhersla á mikilvægi þess fyrir atvinnulífið í bænum að bankaútibúi yrði komið á fót en hins vegar kvað við nýjan tón hvað varðaði yfirtöku bankans á sparisjóðnum. Í grein sem Bjarni Þórðarson bæjarstjóri ritaði og birtist í Austurlandi 10. júlí 1964 mátti lesa eftirfarandi:
Bankaútibú, sem sett kynni að vera á stofn hér í bænum, mundi án efa verða til að greiða mjög fyrir öllum fjármálaviðskiptum. En við eigum ekki að láta það gleypa sparisjóðinn. Hann hefur sínu mikilsverða hlutverki að gegna þrátt fyrir það, og er ekki þýðingarlítið, að eitthvað af útlánsfé sé í höndum heimamanna.
Árið 1966 var á ný fjallað um stofnun bankaútibús á fundi í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar. Á fundinum ríkti einhugur um að sparisjóðnum skyldi ekki fórnað fyrir útibú frá banka. Að lokinni þessari umræðu varð enn á ný nokkurt hlé á umræðu um útibúsmálið.
Árið 1970 hófst umræðan um nauðsyn bankaútibús enn á ný og nú af meiri krafti en nokkru sinni fyrr. Í júlímánuði hélt bæjarstjórn Neskaupstaðar fund og fyrir honum lágu undirskriftarlistar með 444 nöfnum kosningabærra íbúa í kaupstaðnum og Norðfjarðarhreppi þar sem skorað var á bæjarstjórnina að beita sér fyrir því að hið allra fyrsta yrði opnað útibú frá gjaldeyrisbanka í Neskaupstað. Þá kom fram á fundinum að áskorendurnir höfðu sent Seðlabanka Íslands erindi þar sem skorað var á bankann að beita sér fyrir stofnun útibús hið fyrsta.
Um 1970 var mikil umræða um nauðsyn bankaútibús í Neskaupstað.
Myndin er tekin árið 1971. Ljósm. Björn Björnsson
Bæjarstjórnin skipaði nefnd til að fjalla um málið og Seðlabankinn mun strax hafa vísað erindinu til Landsbanka Íslands. Síðar um sumarið kom síðan bankastjóri Landsbankans til Neskaupstaðar til viðræðna við bæjarstjórn og stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar. Flutti bankastjórinn þann boðskap að til greina kæmi að Landsbankinn kæmi á fót útibúi í Neskaupstað, en það yrði ekki gert nema sparisjóðurinn sameinaðist bankanum. Voru þessi viðhorf bankans rædd og í október var haldinn fundur ábyrgðarmanna sparisjóðsins um málið. Á þeim fundi kom fram það viðhorf að brýnt væri að stofna bankaútibú á staðnum en margir fundarmannanna tjáðu sig mótfallna því að sparisjóðurinn yrði lagður niður. Engu að síður var samþykkt tillaga í lok fundar þar sem stjórn sjóðsins var falið að hafa með höndum samningaviðræður við Landsbankann um hugsanlega stofnun útibús og sameiningu sjóðsins og bankans.
Í nóvembermánuði heimsótti aðstoðarbankastjóri Landsbankans Neskaupstað í þeim tilgangi að funda um stofnun bankaútibús. Gerði hann heimamönnum grein fyrir því að sameining bankans og sparisjóðsins væri algjört skilyrði fyrir því að útibúinu yrði komið á fót. Að loknum viðræðum við aðstoðarbankastjórann samþykkti stjórn sparisjóðsins að til greina kæmi að bankinn yfirtæki sjóðinn svo fremi að sex skilyrðum væri fullnægt, en skilyrðin lutu að þjónustu bankans við Norðfirðinga og stofnanir í bænum ásamt því að tryggt væri að starfsfólk sparisjóðsins héldi sínum störfum og réttindum.
Á aðalfundi sparisjóðsins vorið 1971 kom í ljós að nokkur ágreiningur ríkti á meðal ábyrgðarmanna um hvert halda skyldi; sumir vildu fallast á kröfur Landsbankans um að hann og sparisjóðurinn yrðu sameinaðir en aðrir töldu að stefna bæri að því að sparisjóðurinn starfaði áfram eftir að bankaútibú tæki til starfa. Að loknum umræðum var samþykkt að stjórn sparisjóðsins héldi áfram viðræðum við Landsbankann og greinargerð um þær yrði síðan tekin fyrir á fundi ábyrgðarmanna þá um haustið.
Um sumarið kom fjögurra manna sendinefnd frá Landsbankanum til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að ræða við stjórn sparisjóðsins en engar ákvarðanir voru teknar á þeim fundi. Á aðalfundi sparisjóðsins vorið 1972 var áfram rætt um útibúsmálið og var stjórn sjóðsins gagnrýnd fyrir seinagang og að veita ábyrgðarmönnum ekki nægilegar upplýsingar. Það athyglisverðasta sem gerðist á fundinum var að bæjarstjóri upplýsti að viðhorf Landsbankans til sameiningar hans og sparisjóðsins væri breytt; bankinn gerði ekki lengur kröfu um sameininguna og ef bæjarstjórn legði fram beiðni um stofnun útibús þá yrði orðið við henni.
Þessar nýju upplýsingar leiddu til þess að ákveðið var að boða til framhaldsaðalfundar um útibúsmálið þar sem greiða skyldi atkvæði um sameiningu sparisjóðsins og bankans. Á framhaldsaðalfundinum var málið rætt og kom fram skýr andstaða við það að sameinast bankanum. Að lokum voru greidd atkvæði um sameininguna og greiddu fjórir fundarmanna atkvæði með henni, ellefu á móti og einn atkvæðaseðill var auður. Þar með var ákveðið að öllum sameiningarviðræðum við Landsbankann yrði slitið.
Að þessari niðurstöðu fenginni tók bæjarstjórn málið fyrir og á bæjarstjórnarfundi í júnímánuði 1972 var samþykkt að skora á Landsbankann að stofnsetja útibú í Neskaupstað. Bankaráð Landsbankans tók málið fyrir í nóvembermánuði og fól stjórn bankans að hefja undirbúning að stofnun útibúsins sem yrði rekið undir umsjá Eskifjarðarútibús bankans.
Nokkur bið varð á að útibú Landsbankans í Neskaupstað tæki til starfa en 24. maí árið 1974 var það opnað að Hafnarbraut 4 í húsi sem Norðfirðingar kalla Brennu í daglegu tali.
Útibú Landsbankans hóf starfsemi að Hafnarbraut 4 í Neskaupstað
árið 1974. Ljósmynd í eigu Skjala- og myndasafns Norðfjarðar