11 - Sparisjóðurinn og atvinnulífið

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Sparisjóður Norðfjarðar efldist mjög fyrsta áratuginn sem hann starfaði og var það í ágætu samræmi við vaxandi athafnalíf í Neskauptúni. Útgerð gekk vel og fiskvinnslan efldist jafnt og þétt. Þegar sjóðurinn hafði starfað í tíu ár birtist grein í Seyðisfjarðarblaðinu Austfirðingi í tilefni þeirra tímamóta. Greinina ritaði Páll Guttormsson Þormar stjórnarformaður Sparisjóðs Norðfjarðar og kom hún fyrir sjónir lesenda þann 6. desember árið 1930. Í greininni mátti lesa eftirfarandi um þróun sjóðsins og gildi hans fyrir Norðfirðinga:

Þegar litið er yfir viðgang og vöxt sjóðsins, er augljóst að vöxturinn hefur verið nokkuð jafn, innstæður, umsetning og tekjur aukist alltaf nokkuð jafnt frá ári til árs, og aldrei tapast neitt. Þetta má auðvitað þakka mest góðu árferði og afkomu íbúa Norðfjarðar, því nærri eru það eingöngu Norðfirðingar, sem eiga sparisjóðsinnstæður, og einnig hinu, að sjóðurinn er rekinn sem bankafyrirtæki með innheimtustarfsemi, sem hefir gefið honum góðan arð, en þó líklega ekki síst því, hve mikil varfærni hefir verið í útlánum eða víxilkaupum, því…fjeð (er) eingöngu lánað gegn víxlum með góðum ábyrgðarmönnum eða þá fasteignatryggingu á bakvið þá. Þó hefir nokkuð verið lánað út á fiskveð síðustu árin, rekstursfje til útgerðar.
Það eru engar ýkjur þó sagt sje að sjóðstofnun þessi sje þarfasta almenningsfyrirtækið sem stofnað hefir verið til á Norðfirði, því sjóðurinn hefir gert bæjarbúum mun ljettara fyrir með öll viðskipti, enda augljós munurinn á því fyrir almenning, að skifta við peningastofnun á staðnum eða að þurfa að sækja öll smáviðskifti til annara fjarða, en það reyndist oft kostnaðarsamt. Óhætt er einnig að fullyrða, að Sparisjóður Norðfjarðar nýtur ekki einungis trausts þeirra Norðfirðinga, sem skifta við hann, heldur og einnig banka, firma og einstaklinga úti um alla Evrópu, því hann hefir með innheimtustarfsemi sinni náð samböndum um flest lönd Norðurálfunnar.

 

Vöskun á saltfiski
Tilkoma Sparisjóðsins var mikilvæg fyrir norðfirskt atvinnulíf.
Á myndinni sést fólk vinna við vöskun á fiski á athafnasvæði
Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns árið 1922.
Ljósmynd: Björn Ingvarsson.

Þegar Sparisjóður Norðfjarðar hafði starfað í um áratug skall heimskreppan mikla á með öllum sínum neikvæðu áhrifum á efnahags- og atvinnulíf. Kreppan leiddi til þess að það hægði á vexti sjóðsins og sum kreppuáranna einkenndust af miklum samdrætti. Öll umsvif í samfélaginu báru keim af kreppuástandinu en engu að síður gerði sjóðurinn sitt besta til að halda atvinnulífinu gangandi. Sjóðurinn lánaði útgerðarmönnum áður en bátar þeirra héldu á vetrarvertíðir á Hornafjörð eða suður á land, en eigendur bátanna þurftu á fjármunum að halda meðal annars til veiðarfærakaupa. Oftast tók sjóðurinn veð í óveiddum fiski fyrir þessum lánum. Eins lánaði sjóðurinn vertíðarsjómönnunum peninga til að skilja eftir hjá fjölskyldum sínum þegar þeir héldu á vertíð. Á sumrin og haustin, þegar gert var út að heiman, framvísuðu útgerðarmenn vottorðum frá fiskmatsmönnum um fiskeign þegar þeir þurftu á lánum að halda, en sprisjóðurinn tók þá veð í saltfiski sem þeir höfðu verkað.

Þór NK Neskaupstað
Þór NK var einn þeirra báta sem gerðir voru út frá Neskaupstað
á kreppuárunum á fjórða áratug síðustu aldar.
Ljósmynd: Björn Björnsson.

Norðfirskir kaupmenn og Samvinnufélag útgerðarmanna fluttu fisk til útlanda og seldu kaupendum þar. Sparisjóðurinn hafði milligöngu um slík viðskipti og hafði því tengsl við ýmsa banka og fyrirtæki erlendis. Hinir erlendu kaupendur greiddu síðan sparisjóðnum fyrir fiskinn með gjaldmiðli síns heimalands en sparisjóðurinn greiddi norðfirsku seljendunum í íslenskum peningum. Erlendi gjaldeyririnn var ávaxtaður í erlendum bönkum og nýttur til að greiða fyrir vörur erlendis þegar norðfirskir kaupmenn lögðu stund á beinan innflutning söluvarnings en kaupmennirnir greiddu þá fyrir vörurnar með íslenskum peningum. Þessi gjaldeyrisviðskipti sparisjóðsins voru við lýði til ársins 1935 en þá voru þau bönnuð með lögum.

Það var síðari heimsstyrjöldin sem batt enda á kreppuna miklu. Í stað kreppuástandsins tók við efnahagslegt góðæri í Neskaupstað. Vel aflaðist og fiskur seldist háu verði. Hagur fyrirtækja batnaði og útgerð efldist mjög. Innlán í sparisjóðnum jukust og þá um leið möguleikar hans til útlána. Á aðalfundi sparisjóðsins árið 1942 var rætt um bættan hag sjóðsins og með hvaða hætti hann gæti best stuðlað að eflingu byggðarlagsins. Í máli sparisjóðsstjóra kom fram að hann teldi hag almennings best borgið með því að stuðla að skipakaupum og kaupum á öðrum framleiðslutækjum en hans skoðun var sú að skipin yrðu “besta björgin” að ófriðnum loknum.

Sparisjóðurinn átti mikinn þátt í uppbyggingu atvinnulífsins á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar en hafa verður þó í huga að öll stærri fyrirtæki í bænum voru í viðskiptum við Landsbankann enda veitti bankinn til dæmis afurðalán sem sparisjóðurinn gat ekki veitt í ríkum mæli. Sparisjóðurinn gegndi hins vegar umboðshlutverki fyrir útibú Landsbankans á Eskifirði til mikilla þæginda fyrir norðfirska atvinnurekendur.

Á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar jukust síldveiðar úti fyrir Austfjörðum og undir lok áratugarins voru þær veiðar farnar að hafa mikil áhrif á atvinnulífið í Neskaupstað. Mikill uppgangur hófst og góðærið hafði mikil áhrif á hag sparisjóðsins og mótaði starfsemi hans. Það eru hinsvegar bæði gömul og ný sannandi að á síldina er vart að treysta. Á vertíðinni 1967 varð hrun í síldveiðunum og þá tók innistæðufé sparisjóðsins að minnka. Að loknum síldarárum einkenndist atvinnulífið í Neskaupstað af samdrætti en það var þó tiltölulega fljótt að rétta úr kútnum; þökk sé útgerð skuttogara og loðnuveiðum. Áhrif þessara sveifla í atvinnulífinu höfðu skýr og afgerandi áhrif á umsvif sparisjóðsins.

Síldarsöltun á söltunarstöðinni Mána árið 1962
Síldarsöltun á söltunarstöðinni Mána árið 1962. Á því ári voru
fjórar síldarsöltunarstöðvar í Neskaupstað.
Ljósmynd: Guðmundur Sveinsson.

Hér skal atvinnusagan og áhrif atvinnulífsins á starfsemi sparisjóðsins ekki rakin frekar en á framangreindu má sjá hve hagur sparisjóðsins almennt hefur verið háður atvinnu- og efnahagsástandi í byggðarlaginu. Sveiflur í tekjum bæjarbúa hafa strax bein áhrif á umsvif sparisjóðsins. Ef tekjur eru miklar aukast spariinnlögin og um leið möguleikar til útlána en þegar tekjusamdráttur á sér stað minnkar sparifé og sjóðurinn þarf þá jafnvel að draga úr lánum til viðskiptavina.