Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.
Starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar fór vel af stað og blasir við að Norðfirðingar tóku fyrstu peningastofnuninni á staðnum fagnandi og hófu fljótt að hagnýta sér þá þjónustu sem hún bauð upp á. Þegar á árinu 1924 voru umsvif sjóðsins orðin það mikil að nauðsynlegt reyndist að ráða starfsmann til að sinna hluta af þeim störfum sem stjórn hans hafði sinnt fram að því. Starfsmanninum skyldi greidd þóknun af þeirri upphæð sem ætluð var til greiðslu launa stjórnarmanna.
Þegar kom að ráðningu starfsmannsins beindist athygli stjórnarinnar fljótt að Tómasi Zoëga. Tómas var verslunarmaður og vanur því að sýsla með fjármuni og sinna bókhaldi þannig að hann þótti heppilegur starfsmaður peningastofnunarinnar. Hinn 1. mars árið 1926 var Tómas ráðinn í fast starf við sjóðinn fyrir 4.000 kr. árslaun. Stjórn sjóðsins og ábyrgðarmönnum líkaði strax vel við Tómas sem starfsmann og að afloknu fyrsta starfsári hans ákvað aðalfundur að hækka árslaunin um 500 kr.
Tómas Zoëga á skrifstofu Sparisjóðs Norðfjarðar
Ljósmynd: Björn Björnsson
Ekki bar Tómas starfsheitið sparisjóðsstjóri fyrstu starfsárin heldur var hann ýmist nefndur bókari eða starfsmaður og síðar framkvæmdastjóri áður en farið var að nota starfsheitið sparisjóðsstjóra. Áhrif Tómasar á starfsemi sjóðsins urðu fljótt mikil og ótvíræð enda var hann kjörinn í stjórn hans árið 1928 og varð formaður stjórnarinnar árið 1932.
Þegar skoðuð eru heildarinnlán, heildarútlán og staða varasjóðs sparisjóðsins fyrsta áratuginn sem sjóðurinn starfaði, eða á árunum 1920-1930, kemur fram hve viðskipti við sjóðinn uxu hratt. Hér verða birtar tölur á verðlagi hvers árs fyrir árin 1920, 1925 og 1930. Gilda tölurnar um lok hvers árs:
Ár | Heildarinnlán | Heildarútlán | Varasjóður |
1920 | 17.323 | 15.517 | 229 |
1925 | 208.695 | 145.423 | 19.132 |
1930 | 245.898 | 330.050 | 73.166 |
Á þessum tölum má glögglega sjá að Sparisjóður Norðfjarðar festi sig með afgerandi hætti í sessi sem peningastofnun Norðfirðinga á fyrsta áratugnum sem hann starfaði.
Kvittun fyrir innborgun á hlaupareikning nr. 18 í Sparisjóði Norðfjarðar frá
29.desember 1926.
Þrátt fyrir að Sparisjóður Norðfjarðar reyndist Norðfirðingum vel og fullnægði kröfum hins almenna íbúa þurftu atvinnurekendur gjarnan að óska eftir fyrirgreiðslu banka þegar um var að ræða viðamikinn rekstur og miklar fjárfestingar. Í slíkum tilvikum sneru þeir sér til útibús Landsbankans á Eskifirði. Fljótlega hóf Sparisjóður Norðfjarðar að gegna einskonar umboðshlutverki fyrir útibúið svo norðfirskir viðskiptavinir þess þyrftu ekki ávallt að fara til Eskifjarðar til að sinna sínum bankaerindum. Til að mynda gátu útgerðarmenn og stærri atvinnurekendur í Neskaupstað fengið, greitt og framlengt víxla frá útibúinu í starfstöð Sparisjóðs Norðfjarðar og eins gat sparisjóðurinn veitt þeim rekstrarlán fyrir hönd útibúsins. Þetta þýddi að samstarf sparisjóðsstjóra og útibússtjóra Landsbankans varð að vera náið og fullkomið traust að ríkja þeirra á milli.
Skjöldur sem hékk á hurð afgreiðslu Sparisjóðsins árið 1927
Sparisjóðurinn hvatti börn til að spara og leggja peninga inn á bók. Þessi auglýsing birtist í blaðinu Smára síðla árs 1927.
Blaðið var gefið út af barnastúkunni Vorperlu í Nesþorpi.
Vegna samstarfs útibús Landsbankans á Eskifirði og Sparisjóðs Norðfjarðar þurfti oft að flytja skjöl og peninga yfir Oddsskarð. Einn þeirra sem tók þátt í slíkum flutningum var Guðmundur Þorleifsson en hann var einungis 16 ára að aldri þegar hann hóf að fara í slíkar sendiferðir. Einkum gat verið erfitt að fara slíkar ferðir yfir fjallað á veturna en Guðmundur var góður skíðamaður og það var ekki síst af þeirri ástæðu sem hann þótti einkar heppilegur til að sinna þessu starfi.
Guðmundur segir frá því í blaðaviðtali að laun hafi verið greidd í peningum á þessum tíma og Tómas Zoëga hafi ekki viljað hafa mikla fjármuni í sparisjóðnum og því hafi þurft að sækja peninga á Eskifjörð í hvert sinn sem borgað var út á Norðfirði.
Guðmundur greinir frá því að hann hafi fundið góða leið niður úr Oddsskarðinu og á skíðunum gat hann farið fram og til baka á einum degi. Hann lagði af stað í myrkri og það auðveldaði honum gönguna og stytti hana ef hann náði mjólkurbílnum inn Norðfjarðarsveit. Það sem hann flutti á milli fjarða var sett í bakpoka en Guðmundur vissi aldrei hvað var í pokanum. Pokann fékk hann afhentan í sparisjóðnum og útibússtjóri bankans á Eskifirði tók við honum þegar þangað var komið. Útibússtjórinn tæmdi pokann og setti síðan í hann það sem flytja skyldi til baka til Norðfjarðar. Guðmundur segist hafa gengið yfir fjallið á svigskíðum og á þeim hafi hann verið mun fljótari en á gönguskíðum. Hann hafði lesið að Lappar settu selskinn neðan á skíðin sem auðveldaði göngu upp erfiðar brekkur og fjallshlíðar og Guðmundur fór að þeirra ráðum. Hann varð sér úti um selskinn sem hann setti undir skíðin þegar gengið var upp en síðan tók hann skinnin undan skíðunum og renndi sér niður. Það fór lítið fyrir skinnunum í bakpokanum en þau breyttu miklu þegar farið var yfir fjallið í snjó og ófærð.