Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses. var haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 11. apríl. Fundurinn var vel sóttur af stofnfjáreigendum.
Fram kom að rekstur sparisjóðsins gekk vel á liðnu starfsári. Hagnaður af rekstri eftir skatt var 153 milljónir króna. Mest munar þar um einskiptingstekjur vegna slita á Tryggingasjóði sparisjóðanna en hagnaður eftir skatt án þeirra einskiptistekna var um 79 milljónir króna. Innlán sparisjóðsins jukust á árinu um 4% og útlán um 18%.
Aðalfundur samþykkti heimild til stjórnar um að auka stofnfé sjóðsins um 80 milljónir króna. Núverandi stofnfjáreigendur hafa forkaupsrétt til 1. júlí 2019 en heimildin til stofnfjáraukningar gildir til 1. september 2020. Heildarstofnfé sjóðsins er nú 159 milljónir króna og er í eigu um 400 aðila.
Eins og önnur fjármálafyrirtæki glímir sparisjóðurinn við að viðhalda nægu eigin fé til að standast kröfur um eiginfjárhlutfall. Eiginfjárhlutfall sjóðsins var 17,71% í lok síðasta starfsárs og krafan 17,69%. Krafan hækkar í 18,19% á þessu ári og verður 19,19% þann fyrsta janúar 2020 og 19,44% frá 1. febrúar 2020. Hltui eiginfjárkrafna tekur mið af þjóðfélagsaðstæðum og getur breyst með breyttum aðstæðum. Til samanburðar má nefna að sambærileg krafa um eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 8% árið 2008 þegar sjóðurinn stóð af sér efnahagshrunið.
Vegna góðrar afkomu síðasta árs veitir sjóðurinn um 10 milljónir króna til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu. Á aðalfundinum voru Hestamannafélögunum Grana og Þjálfa veittur styrkur að fjárhæð 1 milljón króna til eflingar kennslu í hestaíþróttum fyrir börn og unglinga. Einnig var Daladýrð, húsdýragarðinum í Fnjóskadal, veittur styrkur að sömu fjárhæð.
Hjá sparisjóðnum eru 11 starfsmenn á þremur afgreiðslustöðum, Laugum, Húsavík og í Reykjahlíð. Sparisjóðsstjóri er Gerður Sigtryggsdóttir.