Skilmálar kreditkorta

  1. AÐILAR SKILMÁLA
    1. Aðilar að skilmálum þessum eru handhafi VISA kreditkorts (hér eftir “korthafi”),Sparisjóðurinn (hér eftir “útgefandi”), sem gefur út VISA kreditkort (hér eftir “kort”) til korthafa, og Rapyd hf. (hér eftir “Rapyd”) sem annast kortavinnslu og færslumiðlun fyrir útgefanda.
    2. Sparisjóðurinn er útgefandi kortanna. Sjá má lista yfir þá sparisjóða sem koma sameiginlega fram undir Sparisjóðurinn í viðauka 1. Afgreiðsla sparisjóðanna er opin virka daga á auglýstum afgreiðslutíma. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi útgefanda sem eru Sparisjóðir skv. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    3. Rapyd hf. annast kortavinnslu og færslumiðlun greiðslukorta fyrir banka og sparisjóði. Rapyd - Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - Sími 525 2000 - Fax 525 2020 - Kt: 500683-0589, VSK: 23243 - servicecenter@rapyd.is Afgreiðsla er opin virka daga á auglýstum afgreiðslutíma en þjónustusími er opinn allan sólarhringinn, alla daga í síma 525 2000. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi Rapyd en félagið er lánafyrirtæki skv. 4. gr. 1aga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    4. Korthafaskilmálar eru gefnir út á íslensku.
  2. UMSÓKN OG ÚTGÁFA KORTS
    1. Umsækjandi VISA kreditkorts skal fylla út vefumsókn hjá útgefanda eða senda hana til útgefanda.
    2. Útgefandi og Rapyd áskilja sér rétt til að leita allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru að mati þeirra til að afgreiða umsókn, þ.m.t. upplýsingar um fjárhagsmálefni umsækjanda sem til eru hjá útgefanda og Rapyd, og er þeim heimilt að hafna umsókn án þess að tilgreina ástæðu.
    3. Áður en kort er gefið út, eða hvenær sem útgefandi fer fram á slíkt, skal umsækjandi eða korthafi leggja fram fullnægjandi tryggingu, að mati útgefanda, fyrir skilvísum greiðslum úttekta með korti. Getur slík trygging falist í sjálfsábyrgð þriðja aðila, afhendingu tryggingarvíxils eða samkvæmt samkomulagi umsækjanda og útgefanda.
    4. Kort gilda til ákveðins tíma í senn og eru til notkunar innanlands og utan samkvæmt ákvæðum skilmála þessara og notkunarheimildum og reglum  útgefanda, Rapyd og VISA EUROPE eins og þær eru hverju sinni.
    5. Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út. Misnotkun korts getur varðað við lög, sbr. m.a. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
    6. Korthafi heimilar útgefanda að endurnýja kort 6 vikum áður en gildistími þess rennur út og halda áfram að endurnýja kortið með sama hætti þangað til skrifleg fyrirmæli berast um annað frá korthafa. Óski korthafi eftir því að fá kort eða PIN númer korts heimsent ber hann alfarið ábyrgð á þeirri sending. Hafi korthafa ekki borist kortið innan eðlilegs tíma, ber honum að tilkynna það til útgefanda
    7. Kort eru með mynd af korthafa, sem hann hefur lagt fram með umsókn eða til er í gagnagrunni Reiknistofu bankanna. Myndir sem afhentar eru með umsókn eru varðveittar í gagnagrunni Reiknistofu bankanna skv. heimild korthafa.
    8. Vilji korthafi afturkalla umsókn sína skal hann tilkynna það skriflega til útgefanda og skila kortinu sundurklipptu ásamt fylgikortum hafi umsækjandi þegar veitt því móttöku.
  3. AFHENDING KORTS OG SAMÞYKKI SKILMÁLA
    1. Korthafi skal rita nafn sitt á kortið við móttöku og undirrita umsókn hafi hann ekki gert það áður.
    2. Með fyrstu notkun kortsins samþykkir korthafi að hlíta gildandi viðskiptaskilmálum.
    3. Með því að samþykkja viðskiptaskilmála vefumsóknar og með undirritun umsóknar við móttöku kortsins, samþykkir umsækjandi að fylgja í hvívetna skilmálunum. Áður en umsækjandi samþykkir skilmálana ber honum að kynna sér þá vandlega.
    4. Með notkun endurnýjaðs korts samþykkir korthafi þá kortaskilmála sem þá eru í gildi. Ber honum að kynna sér skilmálana vandlega.
    5. Hvenær sem er, meðan á samningssambandi stendur, getur korthafi óskað eftir að fá afhenta þessa skilmála á pappír eða öðrum varanlegum miðli  endurgjaldslaust.
  4. VARÐVEISLA OG NOTKUN KORTS
    1. Korthafi hefur einn heimild til að nota kort sitt.
    2. Kortið veitir rétt til úttektar á vöru og þjónustu hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við kortum. Við úttekt á vöru og þjónustu skal korthafi skrá sjálfur sérstakt leynilegt og persónulegt innsláttarnúmer sitt, PIN-númer, fari sölu- eða þjónustuaðili fram á slíkt eða rita nafn sitt með eigin hendi á sölunótu/samning. Með áritun á sölunótu eða innslætti á PIN-númeri samþykkir korthafi þau viðskipti sem tilgreind eru á sölunótunni. Í netviðskiptum og við símgreiðslu skal korthafi gefa upp nafn, kortnúmer, gildistíma og öryggisnúmer og jafngildir slík upplýsingagjöf samþykki korthafa fyrir viðskiptunum. Korthafi getur tekið út reiðufé með kortinu í þeim bönkum, sparisjóðum og hraðbönkum sem bjóða korthöfum VISA slíka þjónustu.
    3. Sé kortið notað í hraðbönkum eða öðrum sjálfsafgreiðslutækjum kemur PIN-númer í stað undirskriftar korthafa á sölunótu.
    4. Korthafi er ábyrgur fyrir varðveislu kortsins þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það, enda ber honum að gæta þess á sama örugga hátt og peninga, tékka og annarra verðmæta. Kort og PIN-númer má ekki geyma saman.
    5. Korthafa er hvorki heimilt að láta PIN-númer sitt öðrum í té né geyma það með kortinu. Korthafi skal ekki geyma PIN-númer í veski sínu eða gsm síma eða öðrum rafrænum búnaði eða hverjum öðrum þeim hætti sem er aðgengilegt öðrum. Varðveiti korthafi PINnúmer ekki í samræmi við þennan máta telst það stórfellt gáleysi. Korthafa ber ávallt að ganga úr skugga um að enginn sjái þegar hann slær inn PIN- númer sitt.
    6. Hvert kort hefur hámarksúttektarheimild óháða úttektartímabili. Heimildin er ákveðin af útgefanda og skuldbindur korthafi sig til að nota kortið ekki umfram tilgreinda hámarksheimild. Inneign á fyrirframgreiddu korti jafngildir úttektarheimild þess á hverjum tíma. Hámarksfjárhæð heimilaðrar peningaúttektar kemur fram á heimasíðu útgefanda og ákvarðast m.a. af tegund korts og úttektarmörkum korthafa.
    7. Korthafi getur stofnað til greiðsluþjónustusamninga með korti sínu um sjálfvirkar greiðslur, s.s. boð-, rað- og léttgreiðslur og afborgunarlán, skv. þeim reglum sem útgefandi setur. Rapyd sem lánveitanda afborgunarlána er heimilt að synja korthafa um lán.
    8. Úttektir korthafa í erlendri mynt eru umreiknaðar í íslenskar krónur á því VISA gengi sem í gildi er í greiðsluskiptum milli landa þegar færslan berst Rapyd (skiladagur). VISA gengi er birt á heimasíðu útgefanda; www.spar.is og heimasíðu Rapyd ; www.valitor.is. Viðmiðunargengi er gengi VISA EUROPE sem nálgast má á slóðinni http://www.visaeurope.com/en/cardholders/exchange_rates.aspx. Ofan á viðmiðunargengið er lagt álag. Gengisbreyting tekur gildi þegar í stað en ekki skv. a-lið 13. gr. Gengi er skráð þriðjudaga, miðvikudaga, fimmtudaga, föstudaga og laugardaga. Gengi er ekki skráð á innlendum frídögum eða á frídögum hjá VISA EU. Verði gengi skráð á öðrum dögum tekur sú breyting gildi þegar í stað en ekki skv. a-lið 13. gr.
    9. Skiladagur erlendrar færslu frá söluaðila til færsluhirðis ákvarðar á hvaða kortatímabil úttekt færist.Hins vegar miðast innlendar færslur við færsludag.
    10. Athygli er vakin á því að notkun korts í gjaldeyrisviðskiptum fellur undir upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglugerð eða reglum sem settar eru skv. þeim.
  5. HÁMARKSÚTTEKT OG KORTATÍMABIL
    1. Viðskipti með korti eru bundin við ákveðnar hámarks fjárhæðir mismunandi eftir sölu- og þjónustuaðilum. Söluaðilar sækja um heimild hjá Rapyd ef upphæð fer yfir hámarksfjárhæð í tilteknum viðskiptum.
    2. Útgefanda er heimilt að synja um heimild fyrir úttekt á korti. Algengustu ástæður þess að útgefandi synjar úttektarbeiðni eru eftirfarandi: Kort hefur verið tilkynnt glatað eða stolið, korthafi fer yfir hámarksúttektarheimild kortsins, skuld korthafa við útgefanda er gjaldfallin, rangt PIN- númer hefur verið slegið inn eða gildistími kortsins er útrunninn. Sé fyrir hendi rökstuddur grunur um óheimila eða sviksamlega notkun kortsins er heimilt að synja um úttekarheimild. Í því tilviki er korthafa gert viðvart í framhaldinu án tafar. Reynist sá grunur ekki á rökum reistur er opnað fyrir heimildagjöf þegar í stað.
    3. Almennt kortatímabil, sem reikningsyfirlit korthafa miðast við er mánuður og er byrjun og lok þess auglýst á vefsíðu útgefanda [www.spar.is]. Innlendir söluaðilar geta gert samning við færsluhirði um „breytilegt kortatímabil” þannig að kortatímabilið hefjist fyrr. Korthafi getur óskað eftir því við útgefanda eða þjónustuver Rapyd að kortatímabil hans sé hið sama og auglýst kortatímabil útgefanda, miðað við skiladag færslu, óháð breytilegu kortatímabili hjá sölu- og þjónustuaðila.
  6. HLUNNINDI OG ÞJÓNUSTA
    1. Korthafi getur óskað eftir neyðarkorti og neyðarfé og skal hafa samband við Þjónustuver Rapyd sem afgreiðir slíkar beiðnir. Þjónustuver Rapyd er opið allan sólarhringinn og er neyðarkort og neyðarfé veitt skv. gjaldskrá sem birt er á heimasíðu Rapyd, www.valitor.is og í verðskrá útgefanda:  ww.spar.is.
    2. Korti geta fylgt ýmis hlunnindi, svo sem almenn ferðaslysa- og sjúkratrygging skv. tryggingaskilmálum hverrar tegundar korts, viðlagaþjónusta, heimild til afborgunarlána auk margvíslegra sértengdra fríðinda samkvæmt auglýstum skilmálum þar um á hverjum tíma.
    3. Útgefandi og Rapyd hafa heimild til að breyta, auka eða fella niður hlunnindi og/eða fríðindi skv. þessari grein, enda verði korthöfum kynntar slíkar breytingar á sama hátt og breytingar á skilmálum þessum, sbr. 12. gr.
  7. GREIÐSLUSKIL
    1. Rapyd færir á kortreikning korthafa allar úttektir sem berast á kort hans og er korthafi ábyrgur fyrir greiðslu á þeim úttektum sem berast á kort hans.
    2. Útgefandi sendir korthafa mánaðarlega reikningsyfirlit yfir úttektir tímabils, sem gjaldfalla á næsta eindaga. Hafi korthafi afpantað pappírsyfirlit birtist reikningsyfirlit rafrænt í netbanka korthafa og telst jafngilt heimsendu reikningsyfirliti. Korthafa ber að greiða viðkomandi útgefanda úttektir tímabils, sem gjaldfalla á næsta eindaga að fullu í síðasta lagi 2. dag hvers mánaðar en sé sá dagur almennur lokunardagur banka og sparisjóða færist eindaginn til næsta afgreiðsludags. Hafi greiðsla ekki borist innan þess tíma skulu greiðast dráttarvextir frá gjalddaga til greiðsludags, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.
    3. Sé um Veltikort að ræða er korthafa í sjálfsvald sett að borga inn á skuldina á eindaga eftir því sem honum hentar, þó að lágmarki samkvæmt samkomulagi við útgefanda af útistandandi skuld auk vaxta samkvæmt gildandi vaxtatöflu útgefanda hverju sinni þó að því tilskildu að staða kortareiknings sé undir heimildarmörkum eftir greiðslu á eindaga.
    4. Skuldavextir, sem birtir eru í vaxtatöflu útgefanda, eru breytilegir og háðir ákvörðun hans.
    5. Hafi korthafi veitt útgefanda heimild til skuldfærslu kortreiknings af viðskiptareikningi sínum verður hún gerð á eindaga.
    6. Verði um ítrekuð vanskil að ræða hjá korthafa áskilur útgefandi sér fullan rétt til að loka kortinu og hefja innheimtu skuldarinnar á kostnað korthafa skv. verðskrá útgefanda.
  8. VILLUR OG ÁBYRGÐ
    1. Hafi korthafi athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum að gera skriflega og undirritaða athugasemd hjá útgefanda innan 10 daga frá eindaga greiðslu. Eftir 30 daga frá skiladegi færslu skv. greiðsluyfirliti er útgefanda ekki skylt að taka athugasemd til meðferðar. Rapyd sér um afgreiðslu athugasemda fyrir hönd útgefanda.
    2. Telji korthafi að kort hans hafi verið notað með sviksamlegum hætti ber honum að tilkynna það án tafar til útgefanda eða Rapyd. Í öllum tilvikum þegar grunur um sviksamlega kortanotkun er fyrir hendi ber útgefanda eða Rapyd að loka korti og korthafa að afhenda kortið til útgefanda eða Rapyd. Korthafi ber ekki tjón vegna úttekta sem hann á ekki sannarlega aðild að. Korthafa ber skylda til að aðstoða Rapyd og útgefanda við vinnslu málsins og lágmarka tjónið eins og kostur er.
    3. Þrátt fyrir a-lið og b-lið 8. gr. hefur korthafi að hámarki 13 mánuði til að gera athugasemdir við reikningsyfirlit. Hinn lengdi tímafrestur gildir þó aðeins ef korthafi getur sannað að útgefandi eða Rapyd hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 7. gr. um aðgengi korthafa að reikningsyfirliti.
    4. Ef söluaðili er ófús eða ófær um að inna af hendi þá þjónustu sem korthafi hefur greitt fyrir, atburði aflýst eða söluaðili hættur rekstri, getur korthafi sent skriflega kvörtun til útgefanda. Korthafi getur sent skriflega athugasemd til útgefanda í allt að 90 daga frá þeirri dagsetningu sem þjónustuna átti að inna af hendi, sé hún sannanleg, Kvörtuninni skulu fylgja fullnægjandi gögn til staðfestingar kaupum Telji Rapyd að þjónustan hafi sannanlega ekki verið innt af hendi vegna ofangreindra ástæðna, endurgreiðir Rapyd sem svarar vanefndunum. Komi óviðráðanlegar ytri aðstæður upp (force majeure), sem varða ekki viðkomandi söluaðila eingöngu, svo sem náttúruhamfarir, sprengjuárás/sprengjuhótun, stríð, verkföll, faraldur, viðskiptabann, sjótjón og óeirðir, í veg fyrir að söluaðili geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart korthafa, veitir slíkur ómöguleiki korthafa ekki rétt til endurgreiðslu samkvæmt ofangreindu.
    5. Sérhver ágreiningur út af gæðum vöru eða þjónustu skal leystur beint á milli korthafa og seljanda og ber útgefandi eða Rapyd enga ábyrgð á gæðum keyptrar vöru eða þjónustu.
    6. Útgefandi ber ekki ábyrgð á tjóni korthafa geti hann ekki notað kort vegna galla í kortinu, þ.m.t. í örgjörva kortsins. Telji korthafi kort gallað skal hann skila kortinu til útgefanda. Reynist kortið gallað á korthafi rétt á nýju korti sér að kostnaðarlausu.
    7. Útgefandi ber ekki ábyrgð á tjóni korthafa vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðrum sjálfsafgreiðslutækjum, né heldur á tjóni korthafa sem hlýst af því að sjálfsafgreiðslutæki hefur ekki samband við heimildarkerfi útgefanda. Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni skal hann senda útgefanda eða Rapyd skriflega kvörtun. Útgefandi framsendir kvörtun korthafa til þess færsluhirðis sem ber, fyrir hönd viðkomandi sölu- eða þjónustuaðila, að færa fram fullgild rök fyrir því að búnaðurinn hafi starfað rétt þá er umrædd viðskipti fóru fram, en er ella ábyrgt fyrir tjóninu. Ábyrgð færsluhirðis takmarkast við beint fjárhagslegt tjón korthafa. Færsluhirðir ábyrgist ekki tjón þegar tæknibilun á að vera korthafa ljós, svo sem þegar skilaboð þess efnis koma fram á tölvuskjá.
    8. Hvorki útgefandi né Rapyd bera ábyrgð á því ef móttöku korts er hafnað sem greiðslu hjá söluaðila eða í sjálfsafgreiðslutæki, né því tjóni sem leitt getur þar af.
    9. Í samræmi við reglur VISA EUROPE fær korthafi endurgreiðslu án tafar eftir að ljóst er að hann á rétt á endurgreiðslu. Endurgreiðslan er greidd inn á það kort sem viðkomandi úttekt var færð á.
    10. Í þeim tilvikum að fyrir hendi er greiðsluþjónustusamningur milli korthafa og söluaðila um sjálfvirkar greiðslur, eða úttekt hefur verið gerð á kort korthafa eftir að þjónusta var afhent í tilviki bílaleiga, hótela og skemmtiferðaskipa, hefur korthafi 8 vikur frá færsludegi til að gera skriflega og undirritaða athugasemd með ósk um endurgreiðslu. Hafi korthafi lagt fram athugasemd innan tímafrests og framvísað viðeigandi gögnum máli sínu til stuðnings, fær hann innan 10 daga rökstudda synjun eða endurgreiðslu og þá með fyrirvara um að reglur VISA EUROPE leiði til þess að hann eigi réttmætt tilkall til endurgreiðslu. Leiði reglur VISA EUROPE til þess að korthafi á ekki réttmætt tilkall til endurgreiðslu verður hún innheimt af kortreikningi korthafa. Vilji korthafi ekki una niðurstöðunni getur hann kært hana til úrskurðanefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
  9. VANEFNDIR OG LOKUN KORTA
    1. Kort er eign útgefanda og er honum heimilt að loka og afturkalla öll kort korthafa án þess að tilgreina ástæðu.
    2. Útgefanda eða Rapyd er heimilt að loka fyrirvaralaust öllum kortum korthafa í eftirfarandi tilvikum:
      1. Ef korthafi eða handhafi korts vanefnir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum.
      2. Ef fjárnám er gert hjá korthafa eða ábyrgðarmanni, fram komi ósk um gjaldþrotaskipti á búi þeirra, leiti þeir nauðasamninga.
      3. Ef vanskil verða af hálfu korthafa á greiðslum gjaldfallinna krafna vegna notkunar korts eða útgefandi eða Rapyd þurfa að afskrifa ógreiddar kröfur á korthafa vegna kortanotkunar
    3. Sé korti lokað er kortnúmer skráð í lokanaskrá Rapyd. Rapyd er heimilt að veita útgefanda upplýsingar um lokuð kort sé þess óskað. Vegna áhættustýringar í kortaviðskiptum er heimilt að dreifa skrá um afturkölluð kortnúmer til sölu- og þjónustuaðila.
    4. Korthafa ber að afhenda söluaðila kortið sitt ef fram koma slík skilaboð í sjálfsafgreiðslutækjum söluaðila.
    5. Korthafa er óheimilt að nota kort eftir að því hefur verið lokað. Misnotkun korts getur varðað við lög, sbr. m.a. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
    6. Vanefnd korthafa eða handhafa korts á skyldum sínum samkvæmt skilmálum þessum, þ.m.t. á greiðslu gjaldfallinna krafna vegna notkunar korts, geta leitt til þess að korthafi og handhafi korts fái ekki nýtt kort útgefið síðar.
    7. Vilji korthafi loka korti með uppsögn á samningi sínum við útgefanda skal hann tilkynna útgefanda það skriflega með 30 daga fyrirvara og skila kortinu sundurklipptu ásamt fylgikortum. Afborganir af afborgunarláni verða áfram skuldfærðar á kortreikning korthafa fram að næstu ársendurnýjun. Eftir þann tíma mun innheimta kröfunnar verða með öðrum hætti, s.s. með greiðsluseðli. Útgefandi endurgreiðir árgjald hlutfallslega við algera lokun kortsins.
    8. Fái korthafi nýtt kort í stað korts sem hefur glatast, því verið sagt upp eða lokað, er útgefanda eða Rapyd heimilt að færa á hið nýja kort, eða annð kort í eigu korthafa, það sem eftir stendur af sjálfvirkum greiðslum, s.s. boð-, rað- og léttgreiðslum, og afborgunarlánum sem korthafi hefur samþykkt að færa megi á kortið sitt.
  10. GLÖTUÐ KORT
    1. Glatist kort eða korthafi verður var við óheimilaðar úttektir ber korthafa að tilkynna það tafarlaust til útgefanda, Rapyd eða næsta umboðsaðila VISA  var sem er í heiminum. Sé tilkynningin gefin símleiðis skal staðfesta hana skriflega innan 3ja daga. Strax eftir að tilkynning hefur verið móttekin ber þeim sem móttók tilkynninguna að loka kortinu og koma í veg fyrir frekari notkun þess eða misnotkun. Sá sem móttekur tilkynningu korthafa, hvort heldur er útgefandi eða Rapyd, ber að geyma slíka tilkynningu í 18 mánuði.
    2. Óski korthafi eftir nýju korti í stað glataðs ber honum að skila til útgefanda skriflegri yfirlýsingu um glatað kort og undirrita umsókn um nýtt kort.
    3. Hafi glatað kort verið notað af óviðkomandi aðila áður en hvarf þess er tilkynnt ber korthafi sjálfsábyrgð. Fjárhæð sjálfsábyrgðar er að jafnvirði 150 Evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Við ákvörðun fjárhæðar sjálfsábyrgðar er horft til þess hvernig korthafi varðveitti kortið og PIN-númer og málsatvik þegar kortið týndist, glataðist eða var nýtt með óréttmætum hætti. Korthafi er ábyrgur fyrir öllum úttektum sem staðfestar eru með PIN-númeri, hafi hann ekki varðveitt PIN númer í samræmi við d.- lið 4. gr. enda telst varðveisla með öðrum hætti stórfellt gáleysi. Korthafi er ábyrgur fyrir allri notkun korts og greiðslu úttekta sé um að ræða stórfellt gáleysi eða svik af hans hálfu í sambandi við kort sem tilkynnt eru glötuð.
    4. Korthafi ber ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað, nema hann hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Auk þess ber korthafi ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað ef móttakandi tilkynningar hefur ekki lokað kortinu strax í kjölfar tilkynningar, sbr. a.-lið 10. gr., nema korthafi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
    5. Finni korthafi kort, sem hefur verið tilkynnt glatað, er honum óheimilt að nota það. Tilkynna ber útgefanda fund kortsins og skal skila því til hans.
    6. Óski korthafi eftir enduropnun korts, sem tilkynnt hefur verið glatað en korthafi hefur fundið aftur, ber hann ábyrgð á allri notkun kortsins meðan það var glatað. Beiðni um enduropnun korts skal berast útgefanda og vera skrifleg.
  11. PERSÓNUUPPLÝSINGAR OG PERSÓNUVERND
    1. Persónuupplýsingar verða til í kortakerfum Rapyd. Korthafi veitir með samþykki skilmála þessara útgefanda og Rapyd heimild til að vinna persónuupplýsingar sem verða til við notkun kortsins í greiðslumiðlunarkerfum.
    2. Útgefanda og Rapyd er nauðsynlegt og ber lagaskylda til að vinna persónuupplýsingar til að gegna hlutverki sínu sem fjármálafyrirtæki og greiðslumiðlun og til að tryggja öryggi í fjármála- og greiðsluþjónustu. Persónuupplýsingar eru notaðar við mat á umsóknum, útgáfu reikninga og við aðra hefðbundna starfsemi útgefanda og Rapyd. Útgefandi og Rapyd vinna upplýsingar um korthafa, handhafa korta og ábyrgðarmenn.
    3. Útgefandi og Rapyd ber almennt ábyrgð á vinnslu og meðferð persónuupplýsinga.
    4. Við vinnslu persónuupplýsinga er aðgangur takmarkaður við þá starfsmenn útgefenda og Rapyd sem þurfa aðgang starfs síns vegna. Auk þess er útgefanda og Rapyd heimilt að miðla persónuupplýsingum sín á milli og til vinnsluaðila, þ.e.aðila sem gert hafa þjónustusamninga við útgefanda eða Rapyd, ábyrgðaraðila að skuld korthafa eða aðra aðila sem korthafi heimilar.
    5. Útgefandi og Rapyd tryggja persónuvernd að persónuupplýsingum með því að leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd, m.a. með mótun öryggisstefnu og setningu þeirra öryggis- og verklagsreglna sem krafist er.
    6. Persónuupplýsingar korthafa eru varðveittar á meðan kort korthafa er í gildi, eins lengi viðskiptahagsmunir útgefenda eða Rapyd krefjast eða lög mæla fyrir um.
    7. Korthafi heimilar útgefanda og Rapyd að vinna persónuupplýsingar sem veittar eru við umsókn til að greina og meta lánshæfi, skilvísi og greiðslugetu.
    8. Öll vinnsla persónuupplýsinga fer fram í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    9. Korthafi veitir útgefanda og Rapyd heimild til þess að senda SMS, MMS, tölvupóst eða önnur rafræn skilaboð varðandi notkun kortsins eða tilkynningar um breytingar á skilmálum kortsins. Korthafi getur valið um að afskrá sig af póstlista útgefanda og Rapyd með skriflegri beiðni þar um.
  12. GJALDTAKA
    1. Við fyrstu útgáfu korts greiðir korthafi sérstakt stofngjald auk venjulegs árgjalds.
    2. Fyrir útgáfu nýs korts í stað glataðs greiðist endurútgáfugjald. Fyrir afgreiðslu neyðarfjár eða útvegun neyðarkorts greiðist afgreiðslugjald.
    3. Útgefanda og Rapyd er heimilt að færa korthafa til gjalda mánaðarlegt útskriftargjald og færslugjöld vegna notkunar kortsins.
    4. Af peningaúttektum reiknast úttektargjald og þóknun.
    5. Komi til vanskila skv. 7. kafla í skilmálum þessum eða vegna eftirstöðva sjálfvirkra greiðslna eða afborgunarlána sem Rapyd innheimtir, greiðir korthafi innheimtukostnað skv. verðskrá útgefanda eða Rapyd.
    6. Öll gjöld vegna korta reiknast samkvæmt auglýstri verðskrá útgefanda sem nálgast má á heimasíðu hans; www.spar.is eða í útibúum hans. Öll gjöld vegna þjónustu á vegum Rapyd fer samkvæmt auglýstri verðskrá Rapyd á hverjum tíma sem birt á heimasíðu félagsins; www.valitor.is. Korthafi samþykkir að honum verði tilkynnt um breytingar á verðskrám á heimasíðu útgefanda eða Rapyd. Telst sú birting fullnægja kröfum 6. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán.
  13. BREYTING Á SKILMÁLUM OG AÐRAR TILKYNNINGAR
    1. Útgefandi og Rapyd hafa heimild til að breyta ákvæðum skilmála þessara einhliða. Ef breytingar eru ekki til hagsbóta fyrir korthafa skal honum tilkynnt um þær á tryggan hátt, s.s. með skilaboðum í netbanka eða póstsendingu á tilkynnt aðsetur eða lögheimili korthafa hafi hann ekki aðgengi að netbanka. Breytingar á skilmálum skulu kynntar korthafa eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir gildistöku þeirra. Korthafi skal hafa aðgang að gildandi skilmálum á pappír eða á rafrænu formi. Aðrar breytingar er útgefanda heimilt að birta með tilkynningu á heimasíðu sinni: www.spar.is og í útibúum sínum og Rapyd á heimasíðu sinni: www.valitor.is. Í tilkynningu um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingarnar eru fólgnar og rétti korthafa til að segja samningi upp, sér að kostnaðarlausu. Litið er svo á að korthafi hafi samþykkt breytinguna ef hann notar kortið eftir að nýir skilmálar hafa tekið gildi.
    2. Ef korthafi sættir sig ekki við breytingu á skilmálum getur hann sagt upp samningi sínum við útgefanda í samræmi við ákvæði 9. gr. skilmála þessara.
    3. Útgefandi sendir korthafa tilkynningar vegna annarra atriða s.s. vegna breyttra tryggingaskilmála.
  14. ÝMIS ÁKVÆÐI
    1. Korthafa er skylt að tilkynna aðsetursskipti til útgefanda til að tryggja að reikningsyfirlit og aðrar upplýsingar geti borist honum með eðlilegum hætti.
    2. Vegna notkunar korts erlendis hefur Rapyd heimild til að staðfesta upplýsingar um kort og korthafa til sölu- og þjónustuaðila.
  15. LÖG OG VARNARÞING
    1. Samningur korthafa og útgefanda og skilmálar þessir fara eftir íslenskum lögum, svo og öll mál sem rísa kunna af notkun kortsins, nema um annað sé sérstaklega samið.
    2. Korthafi getur skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a. í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Upplýsingar um úrskurðanefndina er að finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is.
    3. Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Korthafi samþykkir auk þess að útgefandi megi, kjósi hann slíkt, reka innheimtumál í því landi, sem korthafi hefur búsetu hverju sinni.
  16. GILDISTÍMI
    1. Skilmálar þessir gilda frá 01.06.2012 og til þess tíma að nýir skilmálar taka gildi skv. 13. gr.

NOKKUR SÉRÁKVÆÐI

Um neðangreind kort gilda eftirfarandi sérákvæði auk ofangreindra viðskiptaskilmála:

Tengikort

  • Korthafi (hér eftir tengikortshafi) getur sótt um að tengjast korti annars korthafa hjá sama útgefanda.
  • Tengikort er sjálfstætt kort. Korthafi þess er einn ábyrgur fyrir greiðslu úttekta á það kort og skilmálar þessir gilda að öllu leiti um tengikortshafa á sama hátt og aðalkorthafa.

Vildarkort VISA og Icelandair

  • Vildarkort eru kort sem gefin eru út í samstarfi við Vildarklúbb Icelandair, hér eftir nefndur Vildarklúbbur. Handhafar Vildarkorta ávinna sér ferðapunkta vegna innlendrar notkunar á kortinu hjá söluaðilum sem hafa söluaðilasamning við Rapyd, þó ekki vegna úttekta á reiðufé. Að auki getur handhafi vildarkorts áunnið sér aukinn fjölda ferðapunkta í viðskiptum við þá sölu-og þjónustuaðila, sem Vildarklúbburinn hefur gert sérstaka samninga við. Vildarklúbburinn heldur skrá um áunna punkta og veitir Vildarkorthöfum rétt til að nýta punktana sem greiðslumiðil við kaup á flugfarseðlum og annarri þjónustu, sem Icelandair býður þeim með sérstöku viðskiptakerfi. Útgefandi korts og Rapyd bera enga ábyrgð á því gagnvart korthafa að skrá um áunna punkta og staða þeirra í vildarkerfinu sé rétt.
  • Vildarklúbburinn veitir Vildarkortshafa sérstök ferðatengd fríðindi samkvæmt ákvörðun Vildarklúbbsins frá einum tíma til annars, sem hann geta nýtt sér með ráðstöfun ferðapunkta. Vildarklúbburinn gefur út nánari reglur þar um og veitir Vildarkortshafa aðgang að upplýsingum um viðskiptastöðu sína í  vildarkerfinu. Verði breytingar á þessum reglum upplýsir Vildarklúbburinn Vildarkortshafa um þær.
  • Vegna aðildar að vildarkerfi Icelandair greiðir handhafi Vildarkortshafi árlega sérstakt tengigjald til Vildarklúbbsins samkvæmt verðskrá útgefanda eða Rapyd, sem fært er á kortreikning korthafa á 12 mánaða fresti.
  • Korthafi samþykkir að Rapyd og Vildarklúbbnum sé heimilt að miðla upplýsingum um notkun Vildarkorts í viðskiptum við þá aðila, þar sem viðskiptin veita handhafa ferðapunkta, þannig að unnt sé að uppfæra skrár þar um.
  • Komi til þess að Vildarklúbburinn hætti starfsemi bera útgefandi og Rapyd enga ábyrgð gagnvart korthafa.

Viðskiptakort / Innkaupakort VISA

  • Viðskiptakort (VISA Business, VISA Purchasing) eru gefin út í nafni ákveðins einstaklings eða fyrirtækis sem veitir tilteknum handhafa heimild til kortanotkunar fyrir sinn reikning. Gilda skilmálar þessir jafnt fyrir þann aðila sem kortið er gefið út fyrir sem og handhafa þess. Reikningsyfirlit viðskiptakorts/innkaupakorts eru send einstaklingnum eða fyrirtækinu eftir því sem við á.
  • Viðskiptakort geta haft kortatímabil og þ.m.t. eindaga sem er frábrugðið almennu kortatímabili.
  • Verði viðskiptakorti lokað, almennir viðskiptaskilmálar útgefanda og Rapyd vanefndir, fjárnám gert hjá handhafa, einstaklingi, fyrirtækinu eða ábyrgðarmanni, komi fram ósk um gjaldþrotaskipti á búi þeirra eða leiti þeir nauðasamninga, er útgefanda og Rapyd heimilt að afturkalla og loka öllum kortum sem handhafi, einstaklingur eða fyrirtæki hefur fengið. Verði korti lokað er öll kortnotkun frá þeim tíma á eigin ábyrgð handhafa.
  • Segi fyrirtæki, sem veitt hefur tilteknum handhafa heimild til kortanotkunar fyrir sinn reikning, upp samningnum við útgefanda skal afhenda kortið/in ásamt fylgikorti/um til útgefanda. Á meðan fyrrnefndum kortum hefur ekki verið skilað er öll kortnotkun frá uppsagnardegi á ábyrgð fyrirtækisins.
  • Bíla-innkaupakort VISA er gefið út í nafni ákveðins fyrirtækis sem síðan veitir tilteknum handhöfum heimild til notkunar á því. Það er frábrugðið öðrum kortum á þann hátt að hvorki undirskrift korthafa né mynd eru á kortinu. Handhafi kortsins skal samt sem áður rita nafn sitt með eigin hendi á sölunótu eða skrá sjálfur sérstakt leynilegt innsláttarnúmer, PIN-númer, fari sölu- eða þjónustuaðili fram á slíkt. Númer ökutækis og gerð er þrykkt á kortið í stað nafns korthafa. Bíla-innkaupakort er eingöngu hægt að nota hjá sölu- og þjónustuaðilum sem selja vörur fyrir bifreiðar, eins og á bensínstöðvum,smurstöðvum, hjólbarðaverkstæðum og bifreiðaverslunum.

VISA í + (Fyrirframgreitt kreditkort)

  • Einstaklingar á aldrinum 16 til 18 ára geta sótt um að fá útgefið VISA í + sem aðalkort með samþykki forráðamanns. Viðskiptaskilmálar gilda um réttindi og skyldur korthafa.
  • Inneign VISA í + korts verður ekki endurgreidd nema kortinu sé sagt upp og lokað.
  • Korthafa ber ætíð að gæta þess að úttektir hans með kortinu fari ekki fram úr inneign kortsins. Verði hann þess áskynja ber honum tafarlaust að leggja inn á kortið.
  • VISA í + er óheimilt að nota fyrir sjálfvirkar greiðslur.
  • VISA Í + er óheimilt að nota um borð í flugvélum og skipum þar sem ekki er unnt að heimildaleita kortiðForráðamaður ber ábyrgð á greiðslum úttekta umfram inneign kortsins.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?