Helstu tegundir netsvika
Hér að neðan má sjá helstu tegundir netsvika, hvernig hægt er að þekkja þau og verjast þeim. Það er um að gera að deila þessum upplýsingum með ættingjum eða vinum sem þú telur að hefðu gagn af fræðslu um þessi mál.
Vefveiðar (e. Phising)
Vefveiðar eru algengasta form netárása. Ásamt gífurlegum vexti í vefveiðum á hverju ári hafa þær einnig orðið mun fágaðri en áður. Það er greinilegt að mun meiri vinna er lögð í margar af vefveiðaherferðunum og geta þær litið mjög raunverulega út.
Gjafaleikir eru oft notaðir í vefveiðum og er fólk þá beðið að taka þátt í leik á samfélagsmiðlum og skilja eftir athugasemd við færslu. Fölsk Facebook síða svarar síðan athugasemd þátttakanda og tilkynnir honum að hann hafi unnið vinning og reynir að blekkja hann til að gefa upp kortaupplýsingar.
SMS veiðar (e. Smishing)
„Smishing“ er form vefveiða þar sem glæpamenn senda út svikul skilaboð í formi SMS skilaboða. Þetta er algengt form netárása á Íslandi og oftast í því formi að segja að pakki (t.d frá DHL eða UPS) sé kominn til móttakanda og tengill á síðu þar sem þarf að skrá kortaupplýsingar til að greiða „smá“ gjald en þessar upplýsingar eru síðan notaðar til að ná út fjárhæðum af kortinu.
Svikasímtöl (e. Vishing)
Dæmi um svikasímtöl er að hringt er úr símanúmerum sem látin eru líkjast númerum íslenskra banka og greiðslufyrirtækja. Sá sem hringir talar oft ensku og segist vinna í fjarvinnu til að gefa skýringu á því. Aðilinn getur verið mjög sannfærandi en hann reynir að lokka fórnarlömb til að innskrá sig í heimabanka með rafrænum skilríkjum. Þegar innskráningin er leyfð er nær samstundis reynt að svíkja út fjármuni.
Fjárfestasvik (e. Investment Fraud)
Þau felast til dæmis í skilaboðum, tölvupósti, færslu á samfélagsmiðlum, auglýsingum á netinu eða öðru slíku, gjarnan með upplýsingum um hvernig þú getir grætt með því að nýta þér „besta tækifæri ársins“ til kaupa á rafmynt, hlutabréfum eða öðru.
Fyrirmælafalsanir (e. CEO Fraud)
Dæmi um fyrirmælafalsanir eru svikahrappar sem falsa tölvupósta og senda á starfsfólk fyrirtækja, oft í nafni stjórnenda. Pósturinn er oft á tíðum mjög trúverðugur en þá er viðtakandi beðinn að framkvæma greiðslu á reikning sem þrjóturinn hefur yfir að ráða.