Sparisjóður Norðurlands verður að fullu sameinaður Landsbankanum á næstu dögum. Lán sem tekin voru hjá sparisjóðnum færast yfir í lánakerfi Landsbankans seinnipart fimmtudagsins 5. nóvember. Upplýsingar um lán munu um leið hverfa úr Heimabanka Sparisjóðanna og birtast í netbanka Landsbankans.
Reikningar, kreditkort og annað mun færast yfir í Landsbankann í tvennu lagi:
- Í lok dags 6. nóvember: Dalvík (1177), Bolungarvík og Suðureyri (1176).
- Í lok dags 11. nóvember: Þórshöfn (1129), Raufarhöfn (1129), Kópasker (1129).
Vakin er athygli á því að fram eftir degi 12. nóvember geta í vissum tilfellum orðið tafir á þjónustu.
Notandanafn og lykilorð einstaklinga hafa nú verið send sem rafræn skjöl í Heimabanka Sparisjóðanna og verða eingöngu aðgengileg þar.
Viðskiptavinir netbanka fyrirtækja þurfa aftur á móti að sækja nýjar aðgangsupplýsingar í næsta útibú og undirrita samning um netbankaaðgang. Þetta er því miður aðeins hægt að gera eftir að yfirfærslu er lokið. Framvísa þarf skilríkjum frá opinberum aðila svo að afhenda megi viðskiptavini aðgangsupplýsingar. Fyrri notandanöfn og lykilorð virka aðeins í Heimabanka Sparisjóðanna. Við vekjum athygli á að viðskiptavinir geta einungis sótt eigin aðgangsupplýsingar; óheimilt er að sækja þær fyrir annað starfsfólk viðkomandi fyrirtækja.
Öllum viðskiptavinum fyrrum Sparisjóðs Norðurlands ætti nú að hafa borist bréf þar sem farið er yfir helstu breytingar sem verða við samrunann.
Vegna þessara breytinga verður Þjónustuver Landsbankans opið um helgina, frá kl. 11-14 og frá kl. 9-21 frá mánudegi til fimmtudags.