Fimmtudaginn 5. desember opnar formlega nýtt og endurbætt útibú á Garðarsbraut 26, Húsavík.
Við deilum nú húsnæði með Sjóvá.
Á sama tíma opnum við myndlistarsýninguna LIFANDI FLJÓTIÐ í samstarfi við listkonuna Rakel Hinriksdóttur.
Rakel Hinriksdóttir er listkona og grafískur hönnuður að mennt, og hefur teiknað, málað, skrifað og skapað frá unga aldri. Tengingin við náttúruna er alltaf skammt undan í listsköpun Rakelar og hefur hún sérstakan áhuga á tilveru mannanna í náttúrunni.
Opnunartími:
Mán. – fim. 09:00 – 16:00
Fös. 09:00 – 15:00
Við hlökkum til að taka á móti ykkur.
Listakonan Rakel Hinriksdóttir er fædd á Húsavík árið 1986 og ólst upp í Tröð í Reykjadal.
Hún ólst upp ein hjá ömmu sinni og afa, Grétu Guðmundsdóttur og Runólfi Elentínussyni. Mikill og fallegur garður er í Tröð, en amma og afi voru mikið garðyrkju- og náttúrufólk. Lækur rennur við hlið hússins, og listakonan sofnaði því og vaknaði hvern einasta dag við lækjarnið.
Vegna þessa hefur vatn og tenging við flæðandi vatn verið leiðarstef í listsköpun Rakelar alla tíð, en einnig mikil virðing og tilfinning fyrir því, hversu ómetanleg íslensk náttúra er.
Skjálfandafljót er ein af helstu lífæðum vatnsfalla Norðurlands, og eitt af þessum fljótum sem grípa athygli manna á einstakan hátt. Viska þess og vegferð sem lífgjafi er stærri en mennirnir geta nokkurn tíman skilið.
Í störfum sínum sem náttúruverndarsinni og listakona hefur Rakel leitast eftir að tengja saman manninn og jörðina. Hvers eðlis er samband okkar við náttúruna, hvar er jafnvægið og hvernig líður öllum best?
Til þess að færa fljótið og áhrif þess nær okkur, hefur hún sótt vatn í hylinn neðan við Goðafoss og málað með því myndir.
Þú sérð fljótið í nýju ljósi þegar þú hugsar um það sem uppsprettu listar. Sem rödd. Stöðugt flæði og gjöf. Uppsprettu lífs og visku.
Hugsaðu um uppáhalds staðinn þinn.
Lækinn. Tréð. Steininn. Lundinn. Fjöruna. Fjallið. Landið.
Hvaða þýðingu hefur staðurinn? Hvaða hugmynd? Tilfinningu?
Getur þú hugsað þér að missa þennan stað?
Rakel er menntuð sem grafískur hönnuður frá USA. Hún hefur starfað bæði við hönnun og myndlýsingar, en auk þess verið áberandi í fjölmiðlum. Á árunum 2018 - 2022 vann hún í verkefnastjórn og dagskrárgerð á N4 og hefur síðastliðið ár skrifað fréttir, viðtöl og greinar fyrir Akureyri.net. Einnig starfar hún á hjúkrunarheimilinu Hlíð við iðju- og félagsstarf aldraðra.
Rakel er búsett á Akureyri, en kynnir sig ávallt sem Þingeying. Tengingin austur fyrir fjall er sterk. Auk þess að nota myndlist sem vettvang listarinnar, hefur Rakel einnig fengist við skriftir og hefur hún gefið út tvær ljóðabækur og eitt rit í Pastel-ritröð hjá Flóru í Sigurhæðum.
Náttúruvernd hefur ætið skipað stóran sess í tilverunni, en Rakel er nú á sínu öðru ári sem formaður SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.