9 - Hver er munurinn á sparisjóði og banka?

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Eðlilegt er að spurt sé hvað aðgreini sparisjóð frá banka. Skulu hér nefndir nokkrir þættir sem álitnir eru aðgreina þessar tvær tegundir peningastofnana:

  • Bönkum er almennt ætlað að þjóna öllum landsmönnum en sparisjóðum er hins vegar ætlað að þjóna viðskiptavinum á afmörkuðu landsvæði.
  • Stærðarmunur er á bönkum og sparisjóðum. Bankarnir eru stærri stofnanir og geta þeirra til að sinna fjárfrekum verkefnum meiri.
  • Bönkum er stýrt af bankaráðum og bankastjórnum sem hafa aðsetur í höfuðstaðnum á meðan stjórnir sparisjóða eru að öllu eða miklu yti skipaðar heimamönnum á starfssvæðum þeirra.
  • Staðbundin þekking stjórna sparisjóða er betri en bankaráðanna og má ætla að starfsemi stofnananna mótist af því að töluverðu leyti.
  • Hin staðbundna þekking sparisjóðanna gerir það að verkum að þeir eiga oft auðveldara með að afla upplýsinga um lántakendur en bankar. Auðvitað er staðbundin þekking einnig í útibúum banka en útibússtjórar þurftu að lúta fjarlægu valdi á mörgum sviðum.
  • Stofnanir sem eiga heimili í tilteknu samfélagi eins og sparisjóðirnir njóta oft meiri velvildar en stofnanir sem eiga heimili annars staðar. Oft hefur það viðhorf birst að íbúar líti á heimasparisjóðinn sem sína stofnun og telji hann mjög frábrugðinn bönkum sem lúta fjarlægu valdi.
  • Því hefur verið haldið fram að heimastofnanir eins og sparisjóðirnir veki sterkari greiðsluvilja hjá viðskiptavinum en bankastofnanir einmitt vegna þess að tengslin við sparisjóðina eru sterkari og persónulegri.
  • Löggjöf um sparisjóði hefur gjarnan verið strangari en bankanna og hafa bankarnir oft haft meira svigrúm til að veita þjónustu.
  • Gera má ráð fyrir að því fjármagni sem sparisjóðir hafa yfir að ráða sé ekki veitt út úr því byggðarlagi sem þeim er ætlað að þjóna nema fyrir því séu sérstök rök. Bankar binda hins vegar starfsemi sína ekki við afmörkuð landsvæði.
  • Ef hagnaður er af rekstri sparisjóðs er skylt að ráðstafa hluta hans til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sjóðsins. Slíkar reglur gilda ekki hjá bönkum jafnvel þó þeir starfræki útibú sem ætlað er að þjóna íbúum tiltekins svæðis.
  • Fullyrða má að þær hugmyndir sem voru að baki stofnun sparisjóða hafi ekki gert ráð fyrir hagnaðardrifnum stofnunum á meðan yfirleitt hefur mikið verið lagt upp úr því að bankar skiluðu hagnaði af starfsemi sinni.
  • Þó svo að samkeppni hafi ríkt á milli sparisjóða og banka á ákveðnum sviðum þekktist framan af 20. öldinni að sparisjóðir tækju að sér að gegna einskonar umboðshlutverki fyrir banka. Stærri atvinnurekendur þurftu þá að nýta þjónustu bankans en gátu hins vegar greitt af lánum eða framlengt víxla í sparisjóði í sinni heimabyggð.

Þrátt fyrir þann greinarmun sem gera má á sparisjóðum og bönkum er rétt að taka fram að meginhlutverk þeirra er að flestu leyti keimlíkt; það er að gefa viðskiptavinum kost á að varðveita og ávaxta peninga með áreiðanlegum og öruggum hætti og jafnframt stuðla að efnahagslegum framförum með útlánum og ábyrgðarstarfsemi.